RNB 17 júní
RNB 17 júní

Pistlar

Betri tíð
Föstudagur 4. júní 2021 kl. 08:45

Betri tíð

Mikið er nú gaman að geta loksins gengið inn í búð og séð almennilega framan í (flest) fólk! Þekkja í raun þann aðila sem maður er að heilsa. Ekki það að fólk þekki mig ekki enda fáir á svæðinu í mínum stærðar og þyngdarflokki en ég sjálfur var oft að kasta kveðju á einhvern og vissi stundum ekkert um hvern var að ræða. Spjallaði meira að segja um stund í nokkrum tilfellum en vissi samt ekki neitt.

Fleiri sem tengja? Grímuskylda og öll þessi höft hafa tekið sinn toll af okkur og lái hver sem vill unga fólkinu sem sleppir af sér beislinu þessa dagana. Útskriftir, afmælisveislur og meira segja brúðkaupin eru að byrja. Skil það bara mjög vel að fólk gleymi sér aðeins í gleðinni og það á ekki bara við um ungu kynslóðina, hvert sem litið er þá er fólk að hittast og njóta. Við erum smátt og smátt að fá frelsið okkar til baka um þessar mundir og eðlilega er mikil spenna í loftinu. Bólusetningar ganga afar vel og viðkvæmir hópar hafa að mestu lokið sinni bólusetningu. Þetta snýst jú fyrst og fremst um það að vernda þá viðkvæmu. Sjálfur fagna ég þessu öllu saman og lífið er hægt og bítandi að komast í fyrra horf. Duster bílunum fer fjölgandi á götum landsins og fleiri og fleiri flugvélar hefja sig til lofts á degi hverjum. Þetta er merki um betri tíð og fyrir mig persónulega er það mikið gleðiefni að sjá fleiri og fleiri gamla vinnufélaga snúa aftur til vinnu. Ekki vandræði á mínum vinnustað að fá fólk aftur til starfa! Fólk er líka flest hægt og bítandi að þora að vera til, ekki lauma sér til Tenerife og segja engum frá vegna ferðaskammar, nei fólk er farið að þora því að setja strandarmyndirnar á samfélagsmiðlana sem í flestum tilfellum er bara gaman að sjá. Það er allt að gerast hægt og bítandi, eðlilega erum við öll með varann á okkur enda heldur betur skipst á skin og skúrir síðasta árið með sífelldum boðum og bönnum. Boð og bönn sem við höfum tekið á kassann og fært fórnir en allir sammála um að vel hefur til tekist hér á landi.

Staðan er reyndar bara allt önnur núna með allar þessar bólusetningar og hvet ég fólk til þess að þora að lifa lífinu á nýjan leik. Hver á sínum hraða þó Eyjamenn séu byrjaðir að selja miða á Þjóðhátíð og vænti ég þess að Ljósanótt 2021 verði í glæsilegri kantinum!!