Pistlar

Baldvin Njálsson stilltur og stefnir í met hjá Grímsnesi
Jólastemmning við Sandgerðishöfn fyrir nokkrum árum. Mynd: Reynir Sveinsson
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 17. desember 2021 kl. 14:20

Baldvin Njálsson stilltur og stefnir í met hjá Grímsnesi

Síðasti pistill fjallaði að nokkru um nýjan frystitogara Nesfisks, Baldvin Njálsson GK.  Eins og sást í myndbandinu sem fylgdi síðasta pistli, sigldu Víkurfréttir með skipinu frá Keflavík og til Hafnarfjarðar, þar sem tekin voru veiðarfæri og fleira. Skipið fór á miðin og beint vestur á Hala og var þar í nokkra daga kom aftur til Hafnarfjarðar. Þaðan fór hann aftur út og þá á Reykjaneshrygg og síðan aftur til Hafnarfjarðar.

Mikil tækni er í nýja skipinu og þessar ferðir hafa verið farnar til þess að stilla allan búnað sem er um borð í skipinu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Enn sem komið er hefur togarinn ekki landað afla. Þó er búið að færa á skipið kvóta, alls um 770 tonn miðað við þorskígildi. Mestur hluti þess kemur frá Benna Sæm GK, eða 260 tonn af þorski, 325 tonn af karfa og 50 tonn af ýsu. Frá Sóley Sigurjóns GK koma 500 tonn af ufsa.

Áhugavert verður að fylgjast með hvernig Nesfiskur mun ráðstafa kvótanum sínum, því við síðustu úthlutun fékk Nesfiskur alls um 11.200 tonn af kvóta miðað við þorskígldi og nokkuð merkilegt er að dragnótabáturinn Sigurfari GK er alveg kvótalaus, fær enga úthlutun, heldur er kvótinn færður af hinum aflamarksskipunum yfir á Sigurfara GK.

Nóg um þetta, lítum aðeins á aflatölur. Netaveiðin hefur verið að glæðast nokkuð núna síðustu daga og eru Maron GK og Halldór Afi GK komnir með netin utan við Sandgerði og gengið ansi vel. Maron GK kominn með 21,4 tonn í sex og mest 4,4 tonn og Halldór Afi GK 18 tonn í sex og mest 6,3 tonn í einni löndun.  

Grímsnes GK er ennþá að eltast við ufsann og er kominn með 45 tonn í þremur róðrum. Það má geta þess að 2021 stefnir í að vera metár fyrir áhöfnina á Grímsnesi GK, því að aflinn hjá bátnum er núna kominn yfir um 1.700 tonn og er nú er svo komið að báturinn er einn af þremur netabátum á landinu sem eiga möguleika á að enda aflahæsti netabáturinn á íslandi árið 2021.

Talandi um það, að þá hef ég síðustu ár í gegnum síðuna mína aflafrettir.is sett inn könnun þar sem lesendur síðunnar geta velt fyrir sér hvaða bátur er aflahæstur í hverjum flokki fyrir sig og fleira. Ég set inn tengillinn hérna inn og þið skrifið hann inn í tölvu þá komist þið inn í þessa könnun sem inni heldur 20 spurningar: www.surveymonkey.com/r/GP7S9DW

Að framan er aðeins minnst á Sigurfara GK en hann hefur átt ansi góða byrjun núna í desember og er búinn að landað 123 tonnum í átta róðrum og mest 28 tonn. Þegar þessi orð eru skrifuð þá er hann aflahæsti dragnótabáturinn í desember á landinu. Siggi Bjarna GK er þriðji hæsti á landinu og kominn með 50 tonn í sex og Benni Sæm GK er þar á eftir með 31 tonn í sex.

Þessi pistill kemur í annnars mjög stóru og flottu jólablaði Víkurfrétta og vil ég því óska lesendum þessara pistla gleðilegra jóla og takk fyrir samskiptin á árinu.  Miðað við þau viðbrögð sem ég hef fengið útaf þessum pistlum mínum þá er alveg ljóst að þið eruð ansi duglega að lesa þá. Bestu þakkir fyrir það.