Karlakórinn
Karlakórinn

Mannlíf

Upplifði vænan skammt af Þórðargleði
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 26. desember 2023 kl. 06:00

Upplifði vænan skammt af Þórðargleði

Endurnýjaði óvænt kynnin við kennarann og íþróttafréttamanninn

Siggeir Fannar Ævarsson er Grindvíkingur sem hefur komið nokkuð víða við á sínum starfsferli. Hann er menntaður sagnfræðingur og kennari og er einmitt að kenna í dag eftir að hafa verið óvænt sagt upp í vinnunni sem hann var í þar á undan. Þá er hann að hasla sér völl sem íþróttafréttamaður og sér fram á öðruvísi jól þetta árið eins og aðrir Grindvíkingar.

Siggeir hefur eins og allir Grindvíkingar, þurft að aðlagast breyttum aðstæðum, bæði hvað varðar vinnuumhverfi og heimili en kannski eru fáir eins heppnir eins og hann og hans fjölskylda. „Emilía eldri dóttir okkar sem er á fyrsta ári í framhaldsskóla, var í Reykjavík þegar þessi svakalega skjálftahrina hófst en við Soffía konan mín og yngri dóttirin Þórgunnur vorum heima. Ég var einmitt að fara undirbúa kvöldmatinn, setja yfir kartöflur en sá fljótlega að það myndi ekki ganga upp því lætin voru svakaleg. Ég hef upplifað marga jarðskjálfta en aldrei neitt eins og þetta. Mér leið bókstaflega eins og ég væri kominn aftur á frystitogara! Fljótlega fékk ég skilaboð frá svila mínum, þau spurðu okkur hvort við vildum ekki bara koma til þeirra og gista á meðan þessi hrina myndi ganga yfir. Við sögðumst ætla að hugsa málið en svo aðeins seinna komu önnur skilaboð: „Drífið ykkur í bæinn bara. Vont að hafa ykkur þarna!“ Við tókum það helsta sem við þurftum fyrir eina nótt því við eins og aðrir Grindvíkingar, áttum von á að snúa aftur heim daginn eftir. Við vorum rétt komin til þeirra þegar við heyrðum í fréttum að það væri búið að rýma bæinn svo við hugsuðum með okkur hvort við ættum að fara aftur heim til að sækja fleiri hluti. Gerðum það nú ekki en höfum getað farið nokkrar ferðir til að sækja það helsta en við erum einkar heppin, mágkona mín og svili búa í stóru húsi sem er í raun eins og tvær íbúðir. Þrjú af börnunum þeirra eru flogin úr hreiðrinu svo það er nægt pláss fyrir alla, hér munum við geta verið á meðan staðan í Grindavík er eins og hún er. Það eru ekki allir eins heppnir, ég er stöðugt að hitta Grindvíkinga sem eru lentir í eða eru að lenda í vandræðum með gistiaðstöðu. Ég hef heyrt af fimm manna fjölskyldu sem býr í 35 fermetra stúdíóíbúð og einn frændi er með í ofanálag. Þau sofa öll á einum fleti og til að bæta gráu ofan á svart, hrýtur frændinn það hátt að hinir geta ekki sofið. Ég heyri oft svona dæmi og það gefur auðvitað auga leið að þetta er ekki góð staða fyrir neinn.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Jólin, trúleysið og kennslan

Þrátt fyrir að vera trúlaus með öllu heldur Siggeir upp á jólin með glans en jólin verða væntanlega með breyttu sniði í ár. „Okkar hefðir undanfarin ár hafa verið þannig að við höfum verið heima hjá okkur á aðfangadagskvöldi, bara við fjögur og stundum gestir, á jóladegi höfum við alltaf farið til mömmu í hangikjöt og á annan í jólum er alltaf jólaboð hjá Örnu systur Soffíu, þar sem við búum núna. Þar hittist stórfjölskyldan öll og gerir sér glaðan dag, borðum góðan mat og spilum. Eitthvað að þessu mun eðli málsins samkvæmt breytast og á þessum tíma fyrir ári vorum við búin að skreyta allt. Ég keypti mér meira að segja nýjar seríur á húsið og skúrinn fyrir jólin í fyrra! Ég hef heyrt af sumum Grindvíkingum sem ætla að skreyta húsin sín en ég sé nú ekki alveg tilganginn í að skreyta tómt hús. Dóttir mín spurði mig 5. desember hvernig jólin yrðu og ég er einhvern veginn ekki farinn að hugsa út í það. Jólin verða öðruvísi en það er líka allt í lagi, þau eiga að snúast um samveru fjölskyldunnar og ég veit að við verðum saman, borðum góðan mat, opnum gjafir og eigum saman yndislega stund,“ segir Siggeir.

Siggeir endurnýjaði kynnin við kennarann í sér fyrir tveimur árum þegar hann gerðist grunnskólakennari í Grindavík. Það hefur verið púsluspil að undanförnu að koma kennslu fyrir grindvísk börn í eitthvað sem líkist eðlilegt ástand. „Þetta er búið að vera furðulegt ástand. Fljótlega eftir föstudagin örlagaríka sá ég skrif á Facebook, hvort ekki væri örugglega verið að hugsa um börnin, að þau kæmust í skóla sem fyrst. Við kennararnir hittumst á miðvikudeginum eftir að þetta gekk á og þann dag komst kollegi minn í fyrsta sinn í húsið sitt, fékk að fara með björgunarsveitarmanni inn til sín í tíu mínútur og var í áfalli. Við vorum öll í áfalli og ég held að enginn hafi verið í ástandi til að vera kenna þá. Við fengum viku til að vinna úr áfallinu og svo byrjuðu safnskólarnir. Það er alltaf að komast betri og betri mynd á þetta, fyrst vorum við bara að hittast, ekki með neina kennslu en krakkarnir fá fljótt leið á því og um leið og við settum skýran ramma utan um starfið, fór þetta að ganga betur. Ég er einn þriggja umsjónarkennara í áttunda bekk, það eru um 50 nemendur í eðlilegu árferði en það hafa bara rúmlega tuttugu verið að mæta í safnskólann því sem betur fer hafa börn komist fast inn í aðra skóla. Fyrst við erum þrír umsjónarkennarar með einungis tuttugu nemendur, skiptum við dögunum aðeins á milli okkar. Við fylgjumst líka með krökkunum sem voru svo heppin að komast inn í aðra skóla, t.d. komst Þórgunnur dóttir mín inn í Seljaskóla þar sem Anna systir Soffíu er að kenna og er alsæl, er strax búin að eignast vinkonur og er komin í kór skólans. Því má segja að umskipti minnar fjölskyldu hafi gengið vonum framar, Soffía er launafulltrúi hjá Grindavíkurbæ sem gat flutt bæjarskrifstofurnar í Ráðhúsið í Reykjavík, hún er líka í meistaranámi í Háskóla Íslands svo þetta hentar henni ágætlega. Þetta raskar mest daglegu lífi Emilíu sem er í FS en hún á vinkonu sem keyrir á milli svo það hefur ekki verið mikið vandamál. Svo yfir höfuð megum við prísa okkur sæl með okkar stöðu. Hvernig framhaldið verður með skólamálin verður fróðlegt að sjá. Auðvitað yrði best að koma öllum safnskólunum á einn stað en hvort það er mögulegt er ekki gott að segja til um. Það er stöðugt verið að skoða þessi mál og við kennararnir verðum einfaldlega að taka því sem að höndum ber.“

Lögfræði eða sagnfræði og Siðmennt

Siggeir fékk snemma áhuga á sögu og ætlaði sér að læra sagnfræði í háskóla. Um það leyti sem hann var að klára framhaldsskóla fór hann í kynningu í Háskólann í Reykjavík og heillaðist. Siggeir vildi ganga í þann skóla en sagnfræði var ekki á meðal námsgreina, hann vissi ekki hvað hann gæti lært þar og ákvað svo að læra lögfræði en sá fljótt að námið ætti ekki við sig. „Mér fannst þetta voðalega sniðug hugmynd, ég myndi þéna fullt af peningum en sá fljótlega hvað mér fannst námið leiðinlegt og algjörlega óáhugavert. Ég reyndi samt að harka af mér en síðustu vikurnar hálf sónaði ég út og svo kom að prófum. Ég mætti í fyrsta prófið, las yfir það, sá að ekkert hafði síast inn í hausinn á mér á þeim tveimur vikum sem ég lærði fyrir það og einfaldlega hætti með þessum skrifum á prófblaðið; „Þetta er komið gott, takk fyrir mig, sjáumst. Kv. Siggeir.“ Ég fór því að vinna eftir áramótin, fékk fína vinnu í BT tölvum, hafði alltaf haft áhuga á tölvum og skráði mig svo í sagnfræðina um haustið og kláraði það nám. Ég kláraði kennsluréttindi á sama tíma og bauðst afleysing í Menntaskólanum í Kópavogi strax eftir útskrift og kenndi þar sögu og reyndar margt fleira. Ég fékk á endanum fastráðningu en þegar Þórgunnur, yngri dóttir okkar Soffíu var nýfædd, fannst mér allt í einu orðið frekar þrúgandi að keyra á milli og vera svona mikið að heiman svo að ég sótti um stöðu upplýsinga- og skjalafulltrúa hjá Grindavíkurbæ. Ég var þar í fjögur góð ár en undir það síðasta var stemningin orðin eitthvað skrýtin og við vorum sex sem hættum á svipuðum tíma,“ segir Siggeir.

Siggeir er félagi í Vantrú, sem er félag trúleysingja. Í spjall-grúbbu henti einn félagsmanna inn auglýsingu um laust starf framkvæmdastjóra Siðmenntar. Siggeir sem var farinn að hugsa sér til hreyfings hjá Grindavíkurbæ, sótti um og hreppti hnossið. „Starfið átti strax vel við mig, ég gat beitt mér í hinu og þessu sem féll vel að mínu áhugasviði og styrkleikum, skrifaði margar greinar sem voru birtar um þau fjölmörgu málefni sem snúa að starfi Siðmenntar. Ég var eini starfsmaðurinn til að byrja með og þá lenti auðvitað margt á minni könnu en það var í besta lagi, starfið var fjölbreytt og skemmtilegt. Félagið stækkaði ört og umsvifin sömuleiðis og þeir þrír ársreikningar sem ég skilaði af mér sem framkvæmdastjóri, skiluðu allir rúmum fimm milljónum í plús. Ég var búinn að bæta við einum starfsmanni og von var á þeim þriðja, slík voru umsvif okkar orðin en þá fékk ég óvænt boð um að mæta fyrir stjórn daginn eftir. Þrátt fyrir að mikill uppgangur væri í félaginu, fékk ég strax slæma tilfinningu og þegar ég mætti á fundinn daginn eftir, var mér sagt að minna starfskrafta væri ekki lengur óskað og mér bæri að taka mín gögn og yfirgefa vinnustaðinn samstundis. Ég spurði hissa um ástæðuna og fékk þá einföldu skýringu að ég væri ekki lengur rétti maðurinn í starfið. Þetta var mjög blaut tuska í andlitið og eðlilega var ég mjög ósáttur. Ég hafði lagt líf og sál í þetta félag og starf mitt í rúm þrjú ár og að fá ekki einu sinni möguleikann á að hætta með einhvern snefil af reisn situr ennþá í mér. Ég viðurkenni fúslega að hafa upplifað vænan skammt af Þórðargleði [sú „gleði“ að hlakka yfir óförum annarra] þegar ég sá fyrsta ársreikninginn eftir minn brottrekstur, tap upp á rúmar sjö milljónir, niðursveifla á milli ára upp á rúmar þrettán milljónir! Framkvæmdastjórinn sem tók við af mér og þriðji starfsmaðurinn sem ég hafði ráðið en fékk ekki tækifæri á að vinna með, hættu báðar eftir minna en ár í starfi þannig að eftir að ég hvarf á braut fór allt í skrúfuna sýnist mér. Það má ekki misskilja mig, ég vil Siðmennt vel og félagið hefur náð að rétta úr kútnum fjárhagslega en ég held að það sé í mannlegu eðli að finna fyrir smá sigurtilfinningu, ég veit að ég var að gera góða hluti og miðað við algjöran viðsnúning á rekstri félagsins, hljóta að vera líkur á að það hafi verið mistök að láta mig fara. Þann 20. apríl 2022 var ég því kominn í fimm mánaða sumarfrí en nokkrum dögum seinna sá ég auglýst eftir náttúrufræðikennara á unglingastigi í grunnskóla Grindavíkur, sótti um og fékk starfið svo ég var ekki lengi hangandi í lausu lofti varðandi næsta skref á atvinnubrautinni. Þegar ég hugsa til baka hefur nýtt tækifæri alltaf poppað fljótt upp. Þegar ég hætti í lögfræðinni var ég byrjaður hjá BT tölvum þar næsta dag og ég fékk strax starfið hjá Grindavíkurbæ áður en síðasta önnin mín var á enda í MK.

Íþróttafréttamaðurinn

Siggeir hefur löngum verið lunkinn penni. Hann á í handraðanum tvær útgefnar bækur, var ritstjóri Grindavik.is í fjögur ár, greinahöfundur á Lemúrnum, hefur skrifað greinar fyrir leikjaskrár körfuknattleiks- og knattspyrnudeild UMFG og um tíma var hann einn penna Körfunnar.is. Svo kom óvænt tækifæri upp í hendurnar á honum um áramótin 2021. „Ég var í NBA -fantasy-spjallgrúbbu ásamt nokkrum Grindvíkingum og 29. desember spurði Egill Birgis sem vinnur hjá Stöð 2 Sport, hvort einhver okkar gæti græjað sjónvarpsviðtöl eftir leik Njarðvíkur og Keflavíkur sem átti að fara fram kvöldið eftir. Ég hugsaði með mér að ég væri til í að prófa þetta. Þetta gekk vel og ég ákvað að kanna hvort ég gæti gert meira að þessu, sendi tölvupóst á Henry Birgi Gunnarsson sem er yfir íþróttadeildinni, og var sendur í prufu á minn fyrsta leik 5. janúar. Alls urðu þetta svo 47 leikir í fyrra og verða sennilega fleiri í ár. Fyrst voru þetta heimaleikir Grindavíkur og stöku leikur í Reykjavík þegar ég var að vinna þar en í dag einskorða ég þetta við Suðurnesin og Þorlákshöfn. Í dag á meðan ég bý í bænum, býð ég mig fram á alla leiki sem eru í boði. Vinnan snýst um að setja gang leiksins inn á visir.is og ef leikurinn er beinni útsendingu í sjónvarpinu, þarf ég að taka viðtöl 45 mínútum fyrir leik og svo eru alltaf viðtöl eftir leik. Svo þarf að skrifa viðtölin upp og skrifa umfjöllun svo að þetta er heljarinnar verkefni í hvert sinn. Í útileikjum er þetta svona fjögurra tíma törn en maður væri varla í þessu nema af því að maður elskar körfubolta. Síðasta sumar var ég svo beðinn um að taka afleysingar á íþróttadeildinni, þá eru það allar íþróttir, ekki bara körfubolti. Þá mæti ég á vaktina, þarf að fjalla um ákveðna leiki og atburði en þarf líka að geta fundið fréttir sjálfur, ég hef mjög gaman af því. Þá get ég líka stundum gefið mér góðan tíma í að skrifa  lengri greinar þar sem maður þarf að leggja á sig smá rannsóknarvinnu.

Hvað framtíðin ber í skauti sér verður fróðlegt að sjá, bæði hvað þetta ástand í Grindavík varir lengi og líka ef ég hugsa lengra inn í framtíðina. Ég er mjög ánægður í því starfi sem ég er í í dag en eins og mitt atvinnulíf hefur verið, hver veit hvað ég verð að gera eftir fimm ár. Ég veit bara að það verður eitthvað sem ég hef áhuga á. Ég hef aldrei verið feiminn við að sækja um störf sem mér þykja spennandi, ég held stundum að ég sé með öfugt „imposter syndrome“, miði er möguleiki!“ sagði Siggeir að lokum.

Hraðaspurningar

Hvaða lið á Suðurnesjum varð fyrst Íslandsmeistari karla? Njarðvík (fyrst sem íþróttafélag starfsmanna Keflavíkurflugvallar eða hvað það nú hét).

Hvaða lið fékk viðurnefnið Hraðlestin? Keflavík á síðustu öld.

Leikjahæsta körfuboltakona landsins? Ég ætlaði að giska á Önnu Maríu Sveinsdóttur eða Birnu Valgarðs, en mig grunar að hvorugt sé rétt!

Uppáhaldsmatur? Ég segi gjarnan að hamborgar séu uppáhaldsfæðuflokkurinn minn, en plokkfiskur eftir fjölskylduuppskriftinni er minn uppáhalds einstaki réttur.

Draumabíllinn? Ég á núna VIP útgáfuna af KIA Optima og það er langbesti bíll sem ég hef átt. En ef ég ætti sand af seðlum myndi ég fá mér einhvern mjög ópraktískan gamlan bandarískan “muscle car” eins og 1967 Chevy Impala eða 1970 Oldsmobile 442.

Ef þú eldar rómantískan kvöldverð fyrir makann, hvað eldarðu? Grillaðan lax og aspas. Sjálfur myndi ég samt örugglega velja nautasteik.

Blóðmör eða lifrarpylsa? Mér finnst blóðmör sannkallaður herramannsmatur en ég get ekki lyktina af lifrapylsu!

Uppáhaldshljómsveitin, innlend og erlend? Queen verða alltaf númer eitt í hjarta mínu. Á topp fimm eru Queen, Pantera, Clutch, Slayer og Black Sabbath. Ætli íslenska væri ekki Megas eða Súkkat?

Besta lag allra tíma? Vá. Viltu ekki bara spyrja mig hvort barnið mitt ég elska meira? Annars þá hefur Sister Golden Hair með America toppað Spotify Wrapped listann minn tvö ár í röð.

Kók eða Pepsi? Kók, en ég hata ekkert á Pepsi.