Latibær í Frumleikhúsinu
Glanni glæpur loksins á svið hjá Leikfélagi Keflavíkur
Leikfélag Keflavíkur frumsýnir í dag, föstudag, barnaleikritið Glanni glæpur í Latabæ. Sýningin er langþráð verkefni leikfélagsins sem loksins hefur fengið sýningarrétt á verkinu. Glanni glæpur í Latabæ er önnur sviðsuppfærsla á Latabæ. Fyrst var það Áfram Latibær en þar kom Glanni glæpur ekki við sögu.

Æfingar á Glanna glæp hafa staðið yfir síðustu vikur en stór og myndarlegur hópur leikara kemur að uppfærslunni. Að uppfærslunni koma bæði lærðir og leiknir, fjölmörg á sviði og einnig stór hópur á bak við tjöldin.
Leikstjóri er Brynja Ýr Júlíusdóttir og í viðtali við Víkurfréttir sagði hún að þau hjá Leikfélagi Keflavíkur væru meðvituð um pressuna og kröfurnar sem fylgja því að setja upp jafn stórt og vinsælt verk eins og Glanna glæp í Latabæ. Þau séu hinsvegar viss um að kröfuharðir áhorfendur verði ekki fyrir vonbrigðum með sýninguna. Gert er ráð fyrir að Glanni glæpur verði á sviði Frumleikhússins fram að páskum.