Karlakórinn
Karlakórinn

Mannlíf

Kári Snær dúx á haustönn FS
Kári Snær Halldórsson, dúx FS á haustönn 2023.
Laugardagur 6. janúar 2024 kl. 06:14

Kári Snær dúx á haustönn FS

Brautskráning haustannar og skólaslit Fjölbrautaskóla Suðurnesja fóru fram miðvikudaginn 20. desember. Veturinn minnti vel á sig þennan dag og ekki má gleyma að athöfnin fór fram á meðan eldgos stóð yfir í nágrenninu. Útskriftarnemendur og fjölskyldur þeirra létu það ekki á sig fá og fögnuðu áfanganum saman.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Að þessu sinni útskrifuðust 38 nemendur; 33 stúdentar, fimm úr verknámi og sex úr starfsnámi. Þess má geta að sumir luku prófi af fleiri en einni braut. Karlar voru 23 en konur 15. Alls komu 24 úr Reykjanesbæ, níu úr Suðurnesjabæ, þrír úr Grindavík, einn úr Hafnarfirði og einn úr Reykjavík.

Dagskráin fór fram á sal skólans og var með hefðbundnu sniði en athöfninni var einnig streymt. Kristján Ásmundsson, skólameistari, afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir. aðstoðarskólameistari, flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Matthildur Júlía Matthíasdóttir, nýstúdent, flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Íris Jónsdóttir, myndlistarkennari, flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Að venju var flutt tónlist við athöfnina en þar lék Almar Örn Gærdbo Arnarson á trompet, Ívar Snorri Jónsson á píanó og Vilhjálmur Páll Thorarensen á bassa. Viktoria Isolde Nooteboom lék svo á píánó en þau eru öll núverandi og fyrrverandi nemendur skólans og nemendur í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

Að þessu sinni útskrifuðust 38 nemendur; 33 stúdentar, fimm úr verknámi og sex úr starfsnámi.

Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og þátttöku í félagslífi og má sjá nöfn verðlaunahafa á vef Víkurfrétta. Kristján Ásmundsson, skólameistari, afhenti 100.000 kr. námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur þeim nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift og hlaut Kári Snær Halldórsson styrkinn. Kári hlaut einnig 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi en hann útskrifaðist af raunvísindabraut með 9,32 í meðaleinkunn.

Ragnheiður Gunnarsdóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita útskriftarnemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Þau Ástríður Auðbjörg Halldórsdóttir, Birgitta Fanney Bjarnadóttir, Steinunn Helga Pálsdóttir og Justas Augustinaitis fengu öll 30.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í tjáningu og ræðumennsku.

Fjórir nemendur fengu styrk úr Styrktarsjóði FS.
Matthildur Júlíua Matthíasdóttir, nýstúdent, flutti ræðu útskriftarnema.
Íris Jónsdóttir, myndlistakennari, flutti kveðjuræðu til útskriftarnema.