Karlakórinn
Karlakórinn

Mannlíf

Jöfnunarsjóður aðstoði við að tryggja Grindvíkingum búsetu á Suðurnesjum
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 28. janúar 2024 kl. 07:08

Jöfnunarsjóður aðstoði við að tryggja Grindvíkingum búsetu á Suðurnesjum

Anton Guðmundsson, formaður bæjarráðs Suðurnesjabæjar, segir erfitt að verða vitni að þeim miklu náttúruhamförum sem orðið hafa í og við Grindavík. Öflugt og samheldið samfélag í fyrirmyndarsveitarfélagi hefur orðið fyrir miklum áföllum sem setur íbúa Grindavíkur í erfiða stöðu. Anton skrifaði grein á vef Víkurfrétta í vikunni þar sem hann vakti athygli á gjörbreyttri stöðu í húsnæðismálum á Suðurnesjum í kjölfar náttúruhamfara í Grindavík. Staðan kallar á nýja nálgun.

„Þetta eru hrikalegir atburðir sem eru að eiga sér stað í Grindavík og hugur allra landsmanna er hjá Grindvíkingum. Mér finnst staðan vera þannig að það er mikill ábyrgðarhluti fyrir okkur sem sitjum í forsvari fyrir sveitarfélögin í nágrenninu að við eflum núna okkar samtal. Við höfum rætt þetta á vettvangi stjórnar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum að við höfum áhyggjur af því að fólkið sem býr í Grindavík, bæ sem er ofan á lifandi eldstöð, að það leiti og fari annað.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í grunninn eru þetta Suðurnesjamenn. Ég tel mig þekkja vel til Grindavíkur, þar sem ég ólst þar upp, en er búsettur í Suðurnesjabæ í dag og flutti þangað fyrir nokkrum árum. Ég þekki Grindvíkinga. Þeir eru Suðurnesjamenn og vilja vera áfram á svæðinu. Það er verkefnið sem við stöndum frammi fyrir. Ég tala ekki um þetta sem vandamál. Þetta er verkefni. Við þéttum samtalið á þeim grunni að við reynum að koma því við að halda íbúunum á Suðurnesjum og við höldum fyrirtækjunum og atvinnurekstrinum á Suðurnesjum,“ segir Anton.

Hvernig gerum við það?

„Það er stóra verkefnið. Reykjanesbær, Sveitarfélagið Vogar og Suðurnesjabær eru öll í gríðarlegri innviðauppbyggingu, sem er mjög kostnaðarsöm. Það er mesta hlutfallslega fjölgun íbúa á Suðurnesjum. Öll sveitarfélögin á Suðurnesjum, sem eru í nágrenni við Grindavík, eru að byggja grunnskóla, leikskóla og eru í blússandi gatnagerð til að bregðast við þessum þrýstingi um ásókn á svæðið. Svo megum við ekki gleyma því að það er húsnæðisvandi á svæðinu nú þegar eins og á landinu öllu.

Svo kemur 3.700 manna sveitarfélag ofan á þann vanda. Þá þarf að hugsa hlutina víðar og hugsa markvissar aðgerðir til að komast til móts við íbúa og atvinnurekendur á svæðinu. Það er hægt að setja aukinn þunga í gatnagerð á svæðinu en það kallar á samtal við Alþingi.“

Anton segir að Alþingi þurfi að færa nágrannasveitarfélögum Grindavíkur aukna fjármuni tímabundið, mögulega í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. „Það er eitt útfærsluatriðið sem ég hef verið að nefna í þessum efnum. Þá gæti ríkið einnig gefið eftir í lóðarmálum í sveitarfélögunum. Við höfum verið í viðræðum við ríkið um kaup á landi en þau stranda yfirleitt á verðmiðanum.

Þetta getur verið samvinnuverkefni sveitarfélaganna sem standa nálægt Grindavík og ríkisins um það að styðja tímabundið við nágrannasveitarfélögin með greiðslum í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og ríkið gefi eftir lönd. Þannig getum við sett ennþá meiri kraft í þessa innviðauppbyggingu sem ég tel vera bráðnauðsynlega.

Í Grindavík var blómlegt atvinnulíf og íþróttastarf. Þetta er fólk með mikla þekkingu sem við megum ekki missa út af svæðinu. Það mun efla og styðja við byggðirnar sem eru hér nú þegar, því öll erum við í grunninn Suðurnesjamenn. Ég tel mikilvægt að við þéttum samtalið og reynum að vinna markvisst að þessum aðgerðum. Við munum komast í gegnum þessa erfiðu tíma saman með von um bjarta framtíð á Suðurnesjum,“ segir Anton Guðmundsson, formaður bæjarráðs í Suðurnesjabæ.