Grindvíkingar þjappa knattspyrnustuðningsmönnum saman með kótilettukvöldi
Mikill hugur er í forsvarsmönnum Knattspyrnudeildar UMFG í Grindavík en þeir ætla sér að leika heimaleiki meistaraflokks karla í Grindavík í sumar. Til að þjappa stuðningsmönnum saman verður blásið í heljarinnar kótilettukvöld annað kvöld, föstudagskvöldið 14. mars kl. 19, í Reykjanesbæ, n.t. í Sjálfstæðissalnum.
„Það er mikill hugur í okkur, því er ekki hægt að neita. Sumarið leggst vel í okkur en við mætum með öðruvísi lið til leiks í ár en í fyrra, verðum með færri útlendinga og ætlum að byggja þetta á okkar fjölmörgu bráðefnilegu leikmönnum.
Til að þjappa mannskapnum saman ætlum við að koma saman í Sjálfstæðissalnum í Reykjanesbæ og gæða okkur á dýrindis kótilettum að hætti Atla Kolbeins. Ég tek skýrt fram að þetta er ekki herrakvöld, öll kyn er velkomin og það verður glatt á hjalla. Fyrrum forseti vor, Guðni Th. Jóhannesson, verður ræðumaður, við verðum með uppboð og sitthvað fleira skemmtilegt. Siggeir Ævarsson stýrir veisluhöldum og uppstandarinn Örvar Þór Kristjánsson slær á léttu strengina.
Við viljum að sjálfsögðu sjá sem flesta og er hægt að panta miða með tölvupósti á [email protected] og hægt að hafa samband við okkur í stjórninni,“ sagði Sigurður Óli Þórleifsson, varaformaður Knattspyrnudeildarinnar.
