Public deli
Public deli

Mannlíf

82 nemendur útskrifaðir á vorönn
Mánudagur 25. maí 2009 kl. 08:48

82 nemendur útskrifaðir á vorönn


Skólaslit vorannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram laugardaginn 23. maí. Að þessu sinni útskrifuðust 82 nemendur; 53 stúdentar, 13 úr verknámi, 7 sjúkraliðar, 5 brautskráðust af starfsbraut og einn úr starfsnámi. Auk þess luku tveir skiptinemar námi sínu í skólanum.  Nokkrir nemendur brautskráðust af tveimur námsbrautum. Karlar voru 48 og konur 34.  Alls komu 57 úr Reykjanesbæ, 8 úr Grindavík, 5 komu úr Garði, 3 úr Vogum og 2 úr Sandgerði.  Tveir komu frá Eskifirði og einn úr Hafnarfirði, Seltjarnarnesi, Ísafirði, Akureyri og frá Egilsstöðum.

Dagskráin var með hefðbundnu sniði.  Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar.  Guðni Oddur Jónsson nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Ægir Karl Ægisson kennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks.  Nemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fluttu tónlist en m.a. þeirra var nýstúdentinn Jón Árni Benediktsson.

Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur.  Þau Ólafía Kristín Norðfjörð, Davíð Már Gunnarsson og Guðni Oddur Jónsson  fengu viðurkenningu fyrir störf sín í þágu nemenda.  Anna Lilja Lárusdóttir og Ásta Björg Jónsdóttir fengu viðurkenningar fyrir góðan árangur í vinnustaðanámi á sjúkraliðabraut.  Agnar Áskelsson fékk verðlaun fyrir afburðaárangur í húsasmíði og þeir Reynir Ástvaldsson og Sigvaldi Þorsteinsson fyrir góðan árangur í faggreinum húsasmíða.  Ragnar Örn Rúnarsson og Hulda Oddsdóttir fengu viðurkenningar fyrir árangur sinn í bókfærslu, Ingey Arna Sigurðardóttir fyrir fata- og textílgreinar, Sara Sigurðardóttir fyrir spænsku og Jenný Hildur Ómarsdóttir fyrir ensku.  Þá fengu skiptinemarnir Anna-Fee Mennen og Roberto Santovito gjöf til minningar um veru sína í skólanum og á Íslandi.

Að venju veitti Sparisjóðurinn í Keflavík nemendum skólans viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og afhenti Baldur Þórir Guðmundsson þær fyrir hönd Sparisjóðsins. Að þessu sinni hlaut Agnar Áskelsson viðurkenningu fyrir góðan árangur í iðngreinum, þær Sara Sigurðardóttir og Jenný Hildur Ómarsdóttir fengu viðurkenningu fyrir árangur sinn í tungumálum og Elka Mist Káradóttir fyrir íslensku.  Elka Mist hlaut einnig viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi og fékk að launum 100.000 kr. styrk frá Sparisjóðnum.

Ragnheiður Gunnarsdóttir kennari afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja.  Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja.  Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita útskriftarnemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi.  Þau Jóel Rósinkrans Kristjánsson, Bryndís Kristinsdóttir og Steinþór Snær Þrastarson fengu öll 20.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í ræðumennsku og Harald Örn Kristjánsson fyrir framfarir.  Hæsta styrkinn að þessu sinni fékk Davíð Már Gunnarsson en hann hlaut 75.000 kr. fyrir góðan árangur í MORFÍS og Vox Arena og vel unnin störf í þágu nemenda.

Við lok athafnarinnar sæmdi skólameistari Sigtrygg Kjartansson silfurmerki skólans.  Sigtryggur varð í efsta sæti í Landskeppni í efnafræði í vetur og keppir fyrir hönd Íslands á Olympíuleikunum í efnafræði í sumar.  Hann varð einnig í 6. sæti í Þýskuþraut Félags þýskukennara og komst í úrslitakeppni landskeppninnar í eðlisfræði og stóð sig með prýði.

Að lokum sleit Kristján Ásmundsson skólameistari vorönn 2009.

----

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Texti: Vefur Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Ljósmynd: Oddgeir Karlsson