Mannlíf

Hugur, heimili og handverk á Garðskaga
Það er alltaf eitthvað áhugavert að sjá í byggðasafninu. VF/Hilmar Bragi
Sunnudagur 12. maí 2024 kl. 06:12

Hugur, heimili og handverk á Garðskaga

Byggðasafnið á Garðskaga hefur opnað nýja sýningu, Hugur, heimili og handverk Suðurnesjamanna. Tanja Halla Önnudóttir er hönnuður og sýningarstjóri og Þórarinn Magnússon, sem hefur umsjón með vélasafninu, sá um smíðar og framkvæmdu þau í sameiningu alla uppsetningu sýningarinnar í samvinnu við ýmsa aðra. Uppbyggingarsjóður Suðurnesja styrkti gerð sýningarinnar. Byggðasafnið á Garðskaga á myndarlegt safn af saumavélum sem er sýnt í handverkshluta sýningarinnar. Þar naut safnið aðstoðar Fab Lab Suðurnes við að útbúa merkingar við allar saumavélarnar.

F.v.: Magnús Stefánsson, bæjarstjóri, Tanja Halla Önnudóttir, sýningarstjóri, Ásgeir Hjálmarsson, Sigurjóna Guðnadóttir, Margrét I. Ásgeirsdóttir, forstöðumaður safna, og Þórarinn Magnússon, safnvörður.

Það voru hjónin Ásgeir Hjálmarsson og Sigurjóna Guðnadóttir sem opnuðu sýninguna. Ásgeir stofnaði byggðasafnið á sínum tíma og var fyrsti forstöðumaður þess. Sigurjóna er dóttir Guðna Ingimundarsonar en vélasafnið á byggðasafninu kemur úr fórum hans ásamt bláa trukknum sem allir Garðmenn þekkja.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Byggðasafnið á Garðskaga verður opið alla daga í sumar til 30. september frá kl. 10 til 17 og enginn aðgangseyrir er að safninu. Þá verður safnið einnig opið alla hátíðisdaga eins og uppstigningardag, hvítasunnuhelgina, þjóðhátíðardaginn og verslunarmannahelgina. Í vetur verður opið fyrir hópaheimsóknir og safnahelgi er í október.

Hluti af sýningunni Hugur, heimili og handverk Suðurnesjamanna var samstarf við tónlistarskólana í Suðurnesjabæ. Tónlistarskólinn í Garði og Tónlistarskólinn í Sandgerði komu að verkefninu með kennurum og nemendum. Unnin var hljóðupptaka, þar sem hljóð úr hinum ýmsu áhöldum og tækjum byggðasafnsins voru tekin upp. Þá var samnin tónlist og leikið þekkt lag þar sem blandað var saman hefðbundnum hljóðfærum við hljóð frá búsáhöldum ýmiskonar. Verkefnið hlaut m.a. styrk úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.

Tónlistarnemendur voru með skemmtilegan gjörning.

Fleiri sýningar eru í burðarliðnum á Byggðasafninu á Garðskaga. Um næstu mánaðamót opnar lýðveldissýning á safninu. Lýðveldið Ísland verður 80 ára þann 17. júní 2024. Garðskagaviti er einnig 80 ára á þessu ári, en hann var vígður 10. september 1944. Hann er því lýðveldisvitinn. Á sýningunni verður að finna muni í varðveislu safnsins sem tengjast lýðveldissögunni og umfjöllun um vitana fimm í Suðurnesjabæ, Lýðveldisvitann og vitaverði á Garðskaga.

Móttaka Byggðasafnsins á Garðskaga er endurgerð verslunar Þorláks Benediktssonar í Akurhúsum. Þar er rekin safnverslun. Nýjustu gripirnir í versluninni eru vitarnir í Suðurnesjabæ, vitakerti í samstarfi við Kertahúsið á Ísafirði. Þá eru þar einnig Vitakort, eftirprentun eftir vatnslitamyndum af vitunum fimm í Suðurnesjabæ og Reykjanesvita. Byggðasafnið fór í samstarfi við Braga Einarsson, myndlistarmann í Garði, sem málaði vitana. Uppbyggingarsjóður Suðurnesja styrkti safnið til framleiðslu á vitakertunum og vitakortunum. Vitakertin og vitakortin eru í senn listaverk og minjagripir úr Suðurnesjabæ.

Það er líka unnið að gerð fleiri minjagripa sem eiga rætur sínar í Suðurnesjabæ. Síðastliðið haust komst byggðasafnið að samkomulagi við Ingibjörgu Kr. Jóhannesdóttur listakonu, sem býr í Garðinum, um að hún mundi skapa rostunga úr leir, sem aðeins væru seldir á safninu. Rostungar voru veiddir hér á Rosmhvalanesi á sínum tíma. Rostungarnir eru handgerðir og hver og einn einstakur. Þeir eru til sýnis og sölu í safnbúðinni.

Eitt aðalsmerki Byggðasafnsins á Garðskaga er vélasafn Guðna Ingimundarsonar. Hluti vélasafnisns er til sýnis á safninu og verður vélum skipt út með reglulegum hætti á næstu misserum. Þetta er gert þar sem ekki er pláss fyrir allar vélarnar samtímis á safninu. Þá verða vélar gangsettar í sumar eins og undanfarin sumur og verða þær stundir auglýstar sérstaklega.

Byggðasafnið á Garðskaga verður opið alla daga í sumar frá klukkan 10 til 17.

Fleiri myndir frá byggðasafninu á Garðskaga eru í myndasafni neðst á síðunni.

Byggðasafnið á Garðskaga | Maí 2024