Íþróttir

„Við þurfum að sýna okkur og eigum harma að hefna“
Davíð Snær með boltann í leik gegn Þrótti á síðasta tímabili. VF-mynd: Hilmar Bragi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 19. mars 2021 kl. 11:57

„Við þurfum að sýna okkur og eigum harma að hefna“

– segir Davíð Snær Jóhannsson, einn af ungu og spræku leikmönnunum í liði Keflavíkur. Þótt Davíð sé ungur að árum hefur hann öðlast töluverða reynslu með meistaraflokki en hann lék sinn fyrsta leik í efstu deild daginn áður en hann varð sautján ára. Við heyrðum í Davíð og spjölluðum um leik helgarinnar og fleira.

Keflvíkingar komnir í átta liða úrslit

Keflavík endaði í öðru sæti riðils þrjú í A-deild Lengjubikars karla eftir góðan 4:1 sigur á Skagamönnum um helgina. Mörk Keflavíkur skoruðu þeir Rúnar Þór Sigurgeirsson (53’ og 76’), Davíð Snær Jóhannsson (54’) og Ástbjörn Þórðarson (86’). Þeir mæta Víkingum frá Reykjavík í átta liða úrslitum næsta föstudag á Víkingsvellinum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það verður spennandi að fylgjast með Keflvíkingum í efstu deild í sumar en leikur þeirra virðist ætla að vera á svipuðu róli og síðasta sumar, einkennast af leikgleði og öflugum sóknarleik en Keflavík skoraði fjórtán mörk í riðlakeppninni. 

Markaskorararnir Davíð, Rúnar og Ástþór. Mynd: Jón Örvar Arason

– Þetta var góður leikur hjá ykkur um helgina.

„Já, flottur leikur – gott að taka lið í Pepsi-deildinni og gera það sannfærandi. Við erum búnir að vera góðir upp á síðkastið, sérstaklega eftir að Joey og Nacho komu inn í liðið aftur. Það er kominn fílingur í hópinn og gott að byggja á þessu, að komast áfram. Það eru orðin nokkur ár síðan við komumst upp úr riðlinum í Lengjunni. Kominn tími til og þetta leggst vel í mig,“ segir Davíð Snær. „Það er ekki annað hægt en að vera spenntur fyrir tímabilinu, við þurfum að sýna okkur og eigum svolítið harma að hefna síðan við vorum síðast í efstu deild. Við erum nokkrir ennþá af þessum heimamönnum sem vorum í liðinu og við munum hvernig þetta var. Það virðist vera allt annar fílingur í liðinu nú en var þá, svipaður eða betri andi en var síðasta sumar. Við erum sami hópur og höfum bætt við okkur tveimur virkilega flottum leikmönnum sem falla vel inn í hópinn – hugsanlega bætum við fleirum við, ég veit það ekki.“

– Og hvernig ert þú, í toppformi?

„Ég myndi segja að ég hafi aldrei verið í betra standi. Nú er ég að byrja á mínu fjórða tímabili í meistaraflokki og ennþá tiltölulega ungur – mér líst bara vel á þetta. Ég er að stíga upp andlega sem leikmaður og fullorðnast líkamlega. Það er góð blanda.“

– Þannig að þú ætlar að standa þig í sumar og sýna þig fyrir stóru liðunum erlendis.

„Það er klárlega markmiðið og hefur verið frá því maður var lítill, að fara út, og þetta er frábært svið til að sýna sig. Auðvitað er það markmiðið.“

– Hvert væri draumurinn að fara?

„Sko, draumurinn er dálítið opinn. Ég hef mikinn áhuga að spila á Ítalíu til dæmis, það væri alger draumur að spila fyrir AC Milan eða Inter Milan. Svo elskum við Íslendingarnir líka Premier League í Englandi, eins og með ManU [Manchester United] en maður fékk ekkert val um með hvaða liði maður ætti að halda. Ætli það væri ekki æðsti draumurinn, að spila með ManU?“

– Eruð þú og pabbi þinn [Jóhann Birnir Guðmundsson] báðir ManU-menn?

„Já, ég hafði ekkert val um það þegar ég var yngri. Það var það eða ekkert.“

– Þannig að þú ert bara bjartsýnn á sumarið og þið ætlið ekki að endurtaka leikinn frá því síðast, er það?

„Nei, alls ekki! Það er ekki inn í myndinni,“ segir Davíð Snær.

Félagarnir Davíð, Guðjón og Stefán með skærbleiku kollana sína.

Bleika hárið vakti athygli

Það þótti athyglisvert að sjá Davíð leika síðast leik en hárið á honum hafði verið litað skærbleikt. Blaðamanni lék forvitni á að vita hver ástæðan væri.

– Hvernig stóð á þessu uppátæki, að lita á sér hárið bleikt?

„Við vorum með góðgerðarviku í FS í síðustu og í henni er hægt að vera með áheiti. Okkur datt nokkrum félögum í hug að láta lita hárið á okkur bleikt fyrir 75 þúsund kall, með því vildum við leggja til í söfnun handa skólafélaga okkar sem er að glíma við krabbamein – og við vorum ekki lengi að safna þeirri upphæð, það var búið að tveimur dögum eða eitthvað svoleiðis. Þannig að við þurftum að slá til.“

– Hverjir voru með þér í þessu?

„Þetta voru ég, Guðjón Pétur Stefánsson og Stefán Júlían Sigurðsson. Vinir mínir og algerir fagmenn. Bara gaman að þessu,“ sagði bjartsýnn og bleikhærður Davíð að lokum.