Íþróttir

„Manni er fyrst og fremst létt“
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 4. júlí 2020 kl. 07:34

„Manni er fyrst og fremst létt“

– segir fyrirliði Grindvíkinga þegar þeir nældu í sín fyrstu stig í Lengjudeild karla í knattspyrnu.

Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindvíkinga, var í spjalli við Víkurfréttir eftir sigur á Þrótti Reykjavík í annari umferð Lengjudeildarinnar.

– Gott að landa þremur stigum í leiknum en þið þurftuð að hafa fyrir þeim.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Já, heldur betur. Manni er fyrst og fremst létt. Það er sálfræðilegt að næla í fyrsta sigur, ákveðinn hjalli að komast yfir. Sérstaklega þar sem við töpuðum fyrsta leiknum þá var afar gott að komast af stað og í raun ennþá betra að þurfa að hafa fyrri þessu. Ennþá meiri spennulosun þegar markið loksins kom. Ég er fyrst og fremst ánægður með úrslitin.

– Ertu sáttur með leik þinna manna í gær?

Að einhverju leyti en ekki öllu, mér finnst við eiga langt í land miðað við þá möguleika sem ég sé hjá okkur. Eðlilega, vegna ástandsins [Covid-19], erum við ekki alveg búnir að slípast saman en við eigum mikið inni – sem er jákvætt. Margir af strákunum eru að upplifa í fyrsta sinn að við séum mikið að stjórna leiknum og að við eigum að vinna. Eftir þrjú ár í efstu deild þar sem við höfum þurft að berjast fyrir hlutunum, verið meira í því að verjast en að vera með boltann, eru þetta ákveðin viðbrigði. Þó maður þurfi auðvitað alltaf að hafa fyrir hlutunum er þetta er öðruvísi, sérstaklega þegar Þróttarar missa mann af velli tiltölulega snemma og detta til baka. Það þurfti aðra nálgun á leikinn hjá okkur og við vorum í vandræðum á síðasta þriðjungi, í kringum teiginn hjá Þrótti – en fínt að koma þessu inn og við þurfum bara að vinna í okkar málum.

Við vorum reyndar stálheppnir undir lok fyrri hálfleiks þegar þeir komust í gegn og áttu skot í stöng, svo varði markmaðurinn okkar alveg svakalega í restina. Vladan er okkar langbesti leikmaður, atvinnumaður fram í fingurgóma og það sjá allir. Hann er bara af öðru kalíberi og smitar út frá sér öryggi, sem er gott fyrir liðið.

– Þetta voru mikilvæg þrjú stig, eiginlega nauðsynleg til að komast í gang.

Alveg lífsnauðsynleg því við erum að fara í mjög stíft prógram. Við eigum Vestra úti og Keflavík heima í miðri viku. Það er alltaf gaman að vera í sömu deild og Keflavík – þó það væri enn skemmtilegra ef liðin væru í úrvalsdeild. Svo eigum við ÍBV úti, þannig að þetta er þétt dagskrá. Það er leikið þétt út af ástandinu og vonandi fáum við bara að spila þessa leiki, að það verði ekki fleiri smit í þjóðfélaginu.

Annar veruleiki

– Talandi um það, hefurðu áhyggjur af því?

Já, auðvitað. Það kemur upp þetta fyrsta smit í langan tíma og það er í leikmanni. Ísland er lítið land, hvað þá íslenska knattspyrnusamfélagið, og auðvitað er samgangur á milli leikmanna, karla og kvenna. Um leið og þetta fyrsta smit kemur upp þá gerum við þær varúðarráðstafanir sem mögulegar eru. Maður krossleggur fingur og vonar að ástandið versni ekki. Enda skilum maður vel þá Sigurð Marínó og Jónas Björgvin að hafa ekki viljað leika með Þór gegn Leikni Fáskrúðsfirði af ótta við smit (sjá frétt á Fótbolti.net), þeir vinna báðir í heilbrigðisgeiranum og það getur vel verið að fleiri leikmenn geri þetta í sumar. Menn hafa kannski áhyggjur af ástvinum í kringum sig og maður verður að virða það.

Við erum að reyna að gera þetta á skynsamlegastan máta en svo erum við allir mannlegir og um leið og búið er að skora gleyma menn sér og fagna hver ofan í öðrum – en við erum að reyna. Það hefur t.a.m. verið sterk hefð innan klúbbsins að allir heilsast með handabandi, það byggir upp þetta einn-á-einn samband, maður saknar þess svolítið. Það er ekki eins að kallast á þvert yfir klefann – en á meðan við fáum að halda áfram og spila leiki þá kvörtum við ekki. Þetta er bara aðeins annar veruleiki.

– Næsti leikur á móti Vestra. Þið ætlið ykkur þrjú stig þar, er það ekki?

Jú og ég skal alveg viðurkenna að þetta er eitt af því fáa góða við kórónaveiruna, við áttum held ég upphaflega að spila á Ísafirði í byrjun maí en við fáum þennan leik alla vega í júlí. Ég hef leikið á grasi á Ísafirði að vori og það verður að viðurkennast að eðli málsins samkvæmt bjóða þær aðstæður ekki upp á fallega knattspyrnu.

Það sem gerir deildina sérstaklega erfiða nú er fjöldi ferðalaga út á landsbyggðina. Það eru sjö lið sem eru ekki á suðvesturhorninu, höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Þetta er eiginlega landsbyggðarúrvalsdeildin. Þetta eru erfiðir útivellir og maður virðir þá. Þú veist alltaf hvað er að fara að gerast þegar þú ferð að keppa við Þór á Akureyri eða ÍBV í Eyjum. Þetta eru hörkuleikir og menn gefa sig alla í þá – hlaupa af sér lappirnar. Þetta er sjarminn við landsbyggðina. Við munum gefa okkur alla í leikinn við Vestra og vonandi hirða þrjú stig þar.


Grindvíkingar leika gegn Vestra á Ísafirði í dag klukkan 14:00. Vestri hefur eitt stig eftir tvær umferðir og mikilvægt fyrir Grindvíkinga að sækja stig vestur.