Íþróttir

Þróttarar efstir þegar deildin er hálfnuð
Unnar Ari Hansson skorar sigurmark Þróttar gegn KV á föstudag. VF-mynd: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 10. júlí 2021 kl. 23:04

Þróttarar efstir þegar deildin er hálfnuð

Eftir leiki í elleftu umferð annarrar deildar karla í knattspyrnu, sem leikin var um helgina, líta hlutirnir ágætlega út fyrir Suðurnesjaliðin þrjú. Þróttarar leiða deildina með 24 stig, þá kemur Njarðvík í öðru sæti með tuttugu stig og nýliðar Reynis eru í áttunda sæti með fimmtán stig.

Þróttur - KV (1:0)

Það var hörkuleikur í Vogum í gær þegar toppslagur Þróttar og KV fór fram. Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu og kom það aðeins niður á gæðum boltans.

Það voru Þróttarar sem sköpuðu sér færin og á venjulegum degi hefðu þeir átt að skora tvö, þrjú mörk í fyrri hálfleik. Sem dæmi komst Rubén Lozano Ibancos einn á móti markmanni en skaut yfir í sannkölluðu dauðafæri. Rubén var sprækur í leiknum og var nærri því öðru sinni í fyrri hálfleik að skora þegar hann náði skoti úr teignum en boltinn rétt framhjá.

Unnar Ari Hansson kom heimamönnum yfir þegar fyrri hálfleikur var við það að renna út (45'+1) og Þróttur fór með eins marks forystu í hálfleikinn, 1:0.

Þróttarar höfðu völdin framan af í seinni hálfleik og sóttu verulega að marki KV, þeir náðu þó ekki að nýta það og hvert færið af öðru fór forgörðum. Gestirnir sóttu í sig veðrið eftir því sem leið á leikinn náðu upp ágætri pressu á Þrótt en þeir Andy Pew, Ragnar Þór Gunnarsson og Hubert Rafal Kotus voru eins og klettar í vörn heimamanna og hrintu hverri sókninni af annari frá. Mikilvægur sigur Þróttar sem jók forskot sitt á toppnum í þrjú stig.

Vörn Þróttar stóð fyrir sínu í leiknum gegn KV.

Reynir - ÍR (1:1)

Reynismenn tóku á móti ÍR úr Breiðholti á föstudag í annarri deild karla. Í síðustu leikjum hefur Reynir ekki náð að fylgja eftir frábærri byrjun sinni í Íslandsmótinu og er komið í áttunda sæti deildarinnar.

Ekki var leikurinn mikið fyrir augað en hraður andvarinn í Sandgerði gerði leikmönnum erfitt fyrir. Hvorugt lið náði að byggja upp spil og voru það helst Reynismenn sem sköpuðu sér einhver færi.

Það dró ekki til tíðinda fyrr en fimm mínútum fyrir leikslok þegar gestirnir komust yfir með skotir frá vítateig (85') og útlit fyrir að þeir ætluðu að taka öll stigin. Reynismenn voru ekki alveg á þeirri skoðun og þremur mínútum síðar sendi Benedikt Jónsson boltann fram völlinn þar sem Ivan Prskalo áframsendi hann upp í hægra hornið á Magnús Magnússon. Magnús lék inn í teig og gaf aftur á Prskalo sem skoraði (88'). Lokatölur 1:1.

Kristófer Páll Viðarsson og Hörður Sveinsson fagna Ivan Prskalo þegar hann jafnaði leikinn fyrir Reyni. Mynd af Facebook-síðu Reynis

Völsungur - Njarðvík (1:0)

Njarðvíkingar fóru fýluferð til Húsavíkur í dag þar sem þeir mættu Völsungi í frekar tilþrifalitlum leik. Eftir markalausan fyrri hálfleik fengu Húsvíkingar vítaspyrnu á silfurfati eftir mistök í vörn Njarðvíkinga. Njarðvík lék þá úr útsparki og sendi Marc McAusland boltann á Einar Orra Einarsson sem skrikaði fótur og virtist detta eiginlega upp úr þurru, boltinn hrökk af Einari og aftur inn í teiginn þar sem Húsvíkingar náðu honum og var þá brotið á sóknarmanni sem var við það að komast í færi. Robert Blakala átti ekki möguleika á að verja vítið sem var smurt upp í samskeytin, sláin inn og heimamenn komnir yfir (58').

Ekki tókst Njarðvíkingum að finna glufu á vörn Völsungs og voru því ekki fleiri mörk skoruð í leiknum. Njarðvíkingar eru enn í öðru sæti, einu stigi fyrir ofan KV sem tapaði í Vogunum í gær.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, fylgdist með leik Þróttar og KV í Vogunum og má sjá myndir úr leiknum hér að neðan.

Þróttur - KV (1:0) | 2. deild karla 9. júlí 2021