Optical Studio
Optical Studio

Íþróttir

Þristunum kyngdi niður í fyrsta leikhluta
Elías Bjarki Pálsson setur niður eina af þremur þriggja stiga körfum sínum í kvöld. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 29. desember 2022 kl. 23:13

Þristunum kyngdi niður í fyrsta leikhluta

Það var tekið forskot á gamlárskvöld þegar Njarðvíkingar buðu upp á flugeldasýningu í fyrsta leikhluta grannaslags Njarðvíkinga og Keflvíkinga í Subway-deild karla í körfuknattleik sem var leikinn í Ljónagryfjunni í kvöld. Njarðvíkingar gerðu 40 stig í þessum fyrsta leikhluta og þar af rötuðu tíu þristar rétta leið.

Njarðvík - Keflavík 114:103

(40:18, 24:29, 22:25, 28:31)

Eftir fyrsta leikhluta voru Keflvíkingar átján stigum á eftir erkifjendum sínum en þeir gáfust ekki upp og tóku að vinna upp muninn. Njarðvík náði mest 23 stiga mun (50:27) en Keflavík kom honum niður í sautján stig fyrir hálfleik (64:47).

Logi Gunnars búinn að sulla niður þristi.

Með hörku komu gestirnir muninum niður í níu stig áður en þriðji leikhluti var allur (80:71). Áfram hélt Keflavík að klóra í bakkann og þegar um ein og hálf mínúta voru eftir kom Dominykas Milka muninum niður í átta stig (109:101). Milka hljóp hins vegar á sig í kjölfarið þegar hann fékk dæmda á sig tæknivillu og var vísað úr húsi. Dedrick Basile setti vítakastið niður en David Okeke minnkaði muninn í sjö stig (110:103), lengra komst Keflavík ekki og sanngjarn sigur, sem heimamenn sköpuðu með frábærri byrjun, var í höfn.

Bílakjarninn /Nýsprautun
Bílakjarninn /Nýsprautun
Dominykas Milka var stigahæstur Keflvíkinga en hann var með 23 stig og níu fráköst.

Keflavík sýndi mikinn karakter með að leggja fyrsta leikhluta til hliðar og vinna sig inn í leikinn á ný með þolinmæði, ef þeir hefðu hafð aðeins meiri tíma er aldrei að vita hvað hefði getað gerst. Þetta sígilda „ef“ og „hefði“.

Njarðvík: Dedrick Deon Basile 29/4 fráköst/16 stoðsendingar, Logi Gunnarsson 23, Jose Ignacio Martin Monzon 22/8 fráköst, Elías Bjarki Pálsson 13, Mario Matasovic 11/6 fráköst/4 varin skot, Lisandro Rasio 7/7 fráköst, Maciek Stanislav Baginski 7, Ólafur Helgi Jónsson 2, Rafn Edgar Sigmarsson 0, Bergvin Einir Stefánsson 0, Jan Baginski 0.
Keflavík: Dominykas Milka 23/9 fráköst, Valur Orri Valsson 17/11 stoðsendingar, Igor Maric 16/6 fráköst, Eric Ayala 15/5 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 15/6 fráköst, David Okeke 13/4 fráköst, Ólafur Ingi Styrmisson 4/4 fráköst, Yngvi Freyr Óskarsson 0, Magnús Pétursson 0, Nikola Orelj 0, Grétar Snær Haraldsson 0, Frosti Sigurðsson 0.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum og myndasafn er neðst á síðunni.

Njarðvík - Keflavík (114:103) | Subway-deild karla 29. desember 2022