Íþróttir

Stoltar vinkonur Sveindísar
Vinkonurnar saman fyrir leik Íslands og Ítalíu
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
mánudaginn 18. júlí 2022 kl. 09:25

Stoltar vinkonur Sveindísar

„Við erum svo stoltar af henni, hún á þetta innilega skilið,“ segja Suðurnesjameyjarnar Anna Ingunn, Dröfn Einarsdóttir, Elín Helena Karlsdóttir, Katla María Þórðardóttir og Íris Una Þórðardóttir um frammistöðu Sveindísar Jane Jónsdóttur á EM kvenna í fótbolta. Þær voru staddar á leik Íslands og Ítalíu sem fór fram í Manchester á fimmtudaginn. Blaðamaður Víkurfrétta hringdi í stelpurnar eftir leikinn og heyrði í þeim hljóðið. 

Stelpurnar virtust vera í góðu yfirlæti og að njóta lífsins í Manchester. Aðspurðar hvernig stemmningin er búin að vera segja þær allar í einum kór að hún sé „geggjuð.“ Þá bætir Anna Ingunn við að mikið af íslenskum áhorfendum hafi verið á svæðinu. „Það var svo gaman að hitta alla Íslendingana. Við vorum mættar á „fanzone-ið“ í kringum hádegi, þar var ótrúlega mikil stemmning. Jói P og Króli komu að syngja og DJ Dóra Júlía var á svæðinu, það var svo gaman,“ segir Dröfn. 

Allar eru þær vinkonur Sveindísar en þekkja einnig aðrar stelpur úr liðinu eftir að hafa spilað með þeim í yngri landsliðunum. Aðspurðar hvernig það sé að horfa á vinkonu sína spila á svo stóru sviði segir Dröfn: „Það er klikkað, hún er líka svo flott“ og Katla bætir við: „Við erum svo stoltar af henni, hún á þetta innilega skilið.“ 

Stelpurnar segjast vongóðar með framhaldið. „Vonandi förum við bara áfram, það er allt opið ennþá,“ segir Íris. „Stelpurnar eru líka búnar að standa sig sjúklega vel. Það er samt leiðinlegt að leikurinn hafi farið svona, það hefði verið gott að næla í sigur,“ segir Katla María og Íris bætir við: „Við höfum alveg trú á því að þær klári þetta.“ Stelpurnar segja að ef þær gætu komið einhverjum skilaboðum áleiðist til stelpnanna í liðinu fyrir næsta leik, þá væru það þessi: „Ekki vera stressaðar og hræddar og munið þið að njóta, þið eruð á EM. Njótið þess að spila og gerið ykkar besta.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024