Íþróttir

Skagamenn stálu sigrinum í Keflavík
Joey Gibbs er fyrri að ná til boltans, sending hans fór fyrir markið þar sem Nacho Heras setti hann í fjærhornið en á ótrúlegan hátt bjöguðu Skagamenn á línu. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 28. ágúst 2022 kl. 20:29

Skagamenn stálu sigrinum í Keflavík

Það verður seint sagt að knattspyrnan sé sanngjörn íþrótt og það sannaðist heldur betur í leik Keflavíkur og ÍA sem fór fram á HS Orkuvellinum í Bestu deild karla í dag. Keflvíkingar voru mun sterkari aðilinn og sóttu stíft nánast allan leikinn en á einhvern undraverðan hátt komu þeir boltanum ekki í netið, þriðja leikinn í röð. Skagamenn voru lengi vel í nauðvörn og voru komnir með allt sitt lið á aftasta þriðjung vallarins, björguðu þrívegis á línu og skoruðu svo sigurmark á lokamínútum leiksins.

Keflavík - ÍA 0:1

Keflvíkingar eru án efa með súrt bragð í munninum eftir tapið en Skagamenn mega teljast stálheppnir að hafa náð að halda hreinu í dag. Það voru rétt liðnar tvær mínútur af leiknum og Keflvíkingar búnir að eiga tvö færi, það seinna algert dauðafæri hjá Nacho Heras þegar hann tók við sendingu nánast á marklínu en markvörður Skagans náði að verja frá honum á línu. Um tíu mínútum síðar átti Dagur Ingi Valsson hörkuskot í stöngina en inn vildi boltinn ekki.

Leikurinn var harður eins og vanalega þegar þessi lið mætast, hvorugt lið tilbúið að gefa tommu eftir og harkan jókst aðeins eftir því sem leið á leikinn – en Keflvíkingar héldu nánast stöðugri pressu á Skagamenn sem vörðust vel enda með nánast alla sína menn í vörn stóran hluta af leiknum. Rúnar Þór Sigurgeirsson var gríðarlega duglegur upp vinstri kantinn og skapaði oft og tíðum usla í vörn ÍA, þá átti Adam Ægir Pálsson fínar rispur á hinum kantinum en sóknarmönnum Keflavíkur virðast mislagðir fætur fyrir framan mark andstæðinganna þessa dagana og Skagamenn náðu að bægja öllum hættum frá marki sínu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Rúnar Þór við það að sleppa í gegn og eina sem varnarmenn ÍA geta gert er að brjóta á honum.

Þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum átti Joey Gibbs góða fyrirgjöf fyrir markið þar sem Nacho Heras fékk aftur dauðafæri, nú á markteig, en aftur björguðu Skagamenn á línu. Það var svo algerlega gegn gangi leiksins þegar ÍA skoraði eftir hornspyrnu, dekkningin klikkaði hjá heimamönnum og sóknarmaður ÍA fékk boltann á fjærstöng þar sem hann var einn og óvaldaður og Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður Keflavíkur, reyndi að kasta sér fyrir skotið en náði ekki til boltans.

Það er orðinn árviss viðburður að stuðningsmenn Skagans sparki niður auglýsingaskilti og hegði sér ósæmilega á HS Orkuvellinum. Sama var uppi á teningnum þegar ÍA sótti Keflavík heim á síðasta tímabili.

Skagamenn og áhangendur þeirra fögnuðu markinu vel, sumir jafnvel of vel, en Keflvíkingar reyndu hvað þeir gátu í uppbótartíma til að ná inn marki en án árangurs. Svekkjandi tap og Keflavík situr áfram í áttunda sæti en nú fjórum stigum á eftir KR sem er neðsta lið í efri hluta deildarinnar, í sjötta sæti. Keflavík og Fram eru jöfn að stigum í sjöunda og áttunda sæti en Fram á leik gegn Val til góða og er með einu marki betra markahlutfall en Keflavík.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á HS Orkuvellinum í dag og má sjá myndir úr leiknum í myndasafni neðst á síðunni.

Keflavík - ÍA (0:1) | Besta deild karla 28. ágúst 2022