Max Norhern Light
Max Norhern Light

Íþróttir

Nýir leikmenn til Keflavíkur
Kian Paul Williams er alinn upp hjá enska liðinu Leicester.
Föstudagur 13. mars 2020 kl. 16:25

Nýir leikmenn til Keflavíkur

Knattspyrnudeild Keflavíkur hefur gert tveggja ára samning við miðjumanninn Kian Paul Williams. Kian sem er 19 ára Breti lék með Magna frá Grenivík á síðasta tímabili en hann gekk til liðs við þá á miðju tímabili og lék 8 leiki og skoraði 2 mörk.

„Kian er uppalinn hjá Leicester í Englandi og þykir mjög efnilegur leikmaður. Hann á eftir að passa vel í ungt og sprækt lið Keflavíkur í sumar. Kian getur leyst flestar stöður á miðjunni og frammi,“ segir á Facebook síðu knattspyrnudeildar.

Þá hafa framherjinn Björn Bogi Guðnason og miðjumaðurinn Sebastian Freyr Karlsson skrifað undir samninga við Keflavík. Björn sem er 16 ára og Sebastian, 17 ára, munu æfa með meistaraflokki og spila stórt hlutverk í 2. flokki á komandi tímabili.

„Það er mikið gleðiefni fyrir Keflavík að gera samninga við þessa efnilegu leikmenn til næstu ára. Framtíðin hjá félaginu er björt og við stefnum áfram að því að byggja félagið upp á ungum og efnilegum heimamönnum í bland við efnilega og reynslumeiri leikmenn sem vilja taka þátt í þessu verkefni með okkur,“ segir á fb-síðu Keflavíkur.