Íþróttir

Meistarajafntefli hjá Keflavík og Fram
Það voru Framarar sem skoruðu mörkin þó Keflavík væri nokkrum sinnum nálægt því. VF-mynd: Hilmar Bragi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 17. september 2020 kl. 19:35

Meistarajafntefli hjá Keflavík og Fram

1:1 á Nettóvellinum í dag

Það er hörkuspenna í Lengjudeild karla – toppliðin tvö, Keflavík og Fram, mættust í dag á Nettóvellinum í Keflavík. Úrslitin leiksins urðu 1:1 meistarajafntefli en Eysteinn Hauksson, annar þjálfari Keflvíkinga, hefði viljað fá meira úr úr leiknum þó það hafi verið mikilvægt að ná að jafna.

„Það vantaði neistann“ hjá Keflvíkingum í fyrri hálfleik og leikurinn var frekar jafn framan af. Markalaust var í hálfleik en hlutirnir fóru að gerast í þeim seinni.

Á 58. mínútu fékk varnarmaðurinn Anton Freyr boltann í höndina og Framarar fengu dæmda vítaspyrnu. Sindri Kristinn var nálægt því að verja skotið, sem var fast, en lá óvígur eftir. Sindri fór meiddur af leikvelli stuttu síðar. Fram komið með forystu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Skömmu eftir markið fékk Fram tilvalið tækifæri til að tvöfalda forystuna þegar þeir fengu óbeina aukaspyrnu í teig Keflvíkinga en skotið fór hátt yfir markið.

Keflvíkingar hresstust heldur við það að lenda undir og settu pressu á Framara, fengu færi en gestirnir léku fínan varnarleik. Keflavík fékk ágætis færi þegar Joey Gibbs skallaði naumlega framhjá upp úr hornspyrnu á 76. mínútu.

Það brá til tíðinda á 86. mínútu þegar Kian Williams kom boltanum fyrir mark Framara og varnarmaður þeirra skallaði boltann í eigið mark. Staðan orðin jöfn og lítið eftir.

Skömmu eftir að venjulegur leiktími var liðinn braut varnarmaður Fram á Adam Árna, sem var á leið upp völlinn í skyndisókn, og fékk að líta sitt annað gula spjald í leiknum. Þar með voru Keflvíkingar orðnir manni fleiri fyrir lokamínúturnar en það dugði ekki til að klára leikinn.

Staða efstu liða breytist því ekkert því á sama tíma gerðu Grindavík og Leiknir jafntefli. Keflavík er tveimur stigum á eftir Fram, sem er á toppnum, en einu stigi fyrir ofan Leikni. Keflavík á leik gegn Grindavík til góða og geta því komist upp fyrir Fram sigri þeir hann.

Bæði Sindri Kristinn Ólafsson og Andri Fannar Freysson fóru meiddir af velli og það gæti verið dýrkeypt í lokaleikjunum reynist meiðsli þeirra alvarleg.

Næsti leikur Keflvíkinga verður á mánudaginn klukkan 16:30 þegar þeir taka á móti Þrótti Reykjavík á Nettóvellinum.

„Stuðningsmenn, ekki áhorfendur!“

Páll Ketilsson tók viðtal við Eystein Hauksson eftir leikinn sem sagði stuðningsmennina hafa kveikt upp í liðinu þegar neistann vantaði. Honum fannst vanta meiri grimmd í sóknina framan af og að Keflavík hefði átt að klára leikinn. Viðtalið má sjá hér í spilaranum að neðan.

Meðfylgjandi myndasafn tók ljósmyndari Víkurfrétta, Hilmar Bragi Bárðarson.

Keflavík - Fram| Lengjudeild karla 17. september 2020