Íþróttir

KSÍ stefnir að því að klára Íslandsmótið
Keflavík getur mögulega bætt markametið í næstefstu deild og Joey Giggs á möguleika á að bæta markamet sem hefur staðið síðan 1976. Mynd úr safni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 20. október 2020 kl. 21:13

KSÍ stefnir að því að klára Íslandsmótið

– Reynt verður til þrautar að klára tímabilið

Stjórn Knattspyrnusambands Íslands hefur fundað stíft undanfarið í sambandi við áframhald Íslandsmótsins í knattspyrnu og hefur knattspyrnuáhugafólk beðið eftir niðurstöðu. Á þriðjudag gaf KSÍ loks út að leik yrði haldið áfram í deildarkeppni meistaraflokka karla og kvenna en þó með þeim fyrirvara að takmörkunum við æfingum og keppni verði aflétt eigi síðar en 3. nóvember. Keppni í öllum yngri flokkum og eldri flokkum (40+ og 50+) verður hætt.

Stjórn KSÍ og stjórn ÍTF (Íslenskur toppfótbolti – hagsmunasamtök félaga í efstu deildum) hafa bæði ályktað á þann veg að leitað verði allra leiða til að ljúka mótum í meistaraflokki samkvæmt mótaskrá þó ljóst sé að það sé háð óvissuþáttum. Stjórn KSÍ mun taka ákvörðun um Mjólkurbikarkeppni karla og kvenna á næstu dögum.

„Standi reglur yfirvalda ekki í vegi fyrir því að unnt verði að hefja keppni að nýju í byrjun nóvember munu KSÍ og aðildarfélögin vinna samkvæmt öllum reglum sem settar verða af heilbrigðisyfirvöldum og kappkosta um að fylgja áfram ítrustu sóttvarnarúrræðum,“ segir jafnframt á vef KSÍ.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Eftirfarandi orðsending frá stjórn KSÍ birtist á vef Knattspyrnusambandsins þriðjudaginn 20. október:

„Það er ljóst að ákvörðunin um að halda áfram keppni er tekin á erfiðum tímum í samfélaginu. Keppnistímabilið hefur reynt á aðildarfélögin og iðkendur okkar sem og sjálfboðaliða. Á sama tíma höfum við staðið undir þeim áskorunum sem við höfum þurft að takast á við saman og notið fótboltans á þessum erfiðu tímum. Það er í þeim anda sem að við teljum mikilvægt að við klárum tímabilið í öllum deildum þar sem skýr niðurstaða liggur ekki fyrir í deildakeppninni.

Það reynir á okkur í knattspyrnuhreyfingunni eins og samfélagið allt en við vonumst til þess að í góðu samráði og samkvæmt reglum heilbrigðisyfirvalda takist að finna leiðir til þess að ljúka deildarkeppninni fyrir 1. desember. Við stöndum saman þegar á reynir og látum úrslitin ráðast á vellinum ef mögulegt er.“

Víkurfréttir könnuðu viðbrögð nokkurra formanna knattspyrnudeildanna á Suðurnesjum og spurðu hvað þeim fyndist um Íslandsmótinu yrði haldið áfram.

Búið að framlengja óvissunni

„Mér líst alltaf vel á að spila fótbolta en þetta eru erfiðar aðstæður sem er verið að bjóða upp á. Það er óvissa fram yfir næstu mánaðarmót, það liggur ekki enn fyrir hvort verði spilað eða ekki,“ sagði Sigurður Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur.

„Við og okkar lið erum klárir í slaginn og enginn bilbugur á okkur með það að gera. Þetta mun auðvitað leiða til frekari kostnaðar við reksturinn. Aðalatriðið er að eyða óvissunni en með þessu er búið að framlengja henni.

Það væri ekki verra að halda áfram á sömu braut og tryggja okkur upp í efstu deild, Keflavík getur bætt markametið í deildinni og sömu sögu er að segja af Joey Gibbs, hann getur bætt markamet sem hefur staðið frá 1976.“


Eiginlega ekkert annað í stöðunni

„Ég held að Knattspyrnusambandið hafi eiginlega ekki getað gert ekki gert neitt annað en að reyna að klára mótið þar sem það var búið að gefa út fyrr í sumar að Íslandsmótið yrði klárað fyrir 1. desember,“ segir Gunnar Már Gunnarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur.

„Það er sama hvor kosturinn hefði verið valinn, það mun alltaf skapast sú umræða að úrslit verði ósanngjörn – leikmenn eru farnir frá liðum o.s.frv. Ég tel að þetta sé skársti kosturinn því ef það hefði ekki verið leikið áfram hefði það skapað óvild og leiðindi innan knattspyrnusamfélagsins. Þetta breytir auðvitað litlu fyrir okkur Grindvíkinga, við erum ekki í baráttusæti lengur en fyrir önnur lið getur þetta skipt miklu.“


Við ætlum upp

Gylfi Þór Gylfason, formaður knattspyrnudeildar Njarðvíkur, var að vonum ánægður með þessa niðurstöðu en Njarðvík var eitt þeirra níu félaga sem undirrituðu yfirlýsingu þar sem skorað var á KSÍ að klára mótið.

„Ég er mjög ánægður að fá að klára mótið. Við eigum enn möguleika á að vinna okkur upp um deild og það hefði verið ósanngjarnt að fá ekki tækifæri til þess,“ sagði Gylfi. „Við viljum klára mótið og við ætlum upp.“


Gefur okkur líflínu

„Mér líst þokkalega á þetta, það eru alla vega komnar línur í þetta. Það er skárra en að enginn viti neitt. Þetta gefur okkur hiklaust líflínu og það er gott fyrir okkur að mótið haldi áfram,“ sagði Sólmundur Ingi Einvarðsson, formaður Víðis.