Íþróttir

Keflvíkingar leika til úrslita í fyrsta sinn í ellefu ár
Og þá var kátt í höllinni. Stuðningsmenn Keflavíkur ærðust af gleði eftir leik. VF-mynd: POP
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 7. júní 2021 kl. 23:06

Keflvíkingar leika til úrslita í fyrsta sinn í ellefu ár

Sópuðu KR-ingum sannfærandi í sumarfrí

Keflvíkingar sýndu enga miskunn þegar þeir mættu KR í þriðja leik liðanna í undanúrslitum úrslitakeppni Domino's-deildar karla í körfuknattleik. Keflavík tók tíu stiga forystu á fyrstu mínútunum og lauk leiknum með átján stiga sigri heimamanna í Blue-höllinni – Keflavík - KR 88:70 (22:14, 25:20, 18:19, 23:17)

Keflavík byrjaði af krafti og hafði náð tíu stiga forystu (12:2) snemma í fyrsta leikhluta. Lengi vel komust KR-ingar hvorki lönd né strönd og þegar leikhlutinn var meira en hálfnaður höfðu þeir einungis skorað fjögur stig (18:4). KR náði þó að laga stöðuna og leikar stóðu 22:14 eftir fyrsta leikhluta.

KR hélt áfram að skera niður forskotið sem Keflavík hafði náð og var það komið í 24:20 eftir rúma mínútu af öðrum leikhluta. Þá tóku Keflvíkingar við sér og hófu að breikka bilið milli liðanna á ný – varð munurinn sextán stig þegar hann var mestur, staðan í hálfleik 47:34.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það var ljóst að KR þyrfti að setja í fluggírinn í seinni hálfleik ef þeir ætluðu að fá fjórða leikinn en í þriðja leikhluta var mjög jafnt á með liðunum. Keflavík hleypti KR aldrei upp að hlið sér og enn munaði töluverðu þegar síðasti leikhlutinn hófst, 65: 53.

Fjórði leikhluti spilaðist vel hjá Keflavík, þeir héldu KR-ingum í skefjum og ef KR minnkaði muninn þá fengu þeir bara þriggja stiga körfu í andlitið og forskot heimamanna jókst á ný. Að lokum var öruggur átján stiga sigur deildarmeistaranna í höfn og Keflvíkingar eru komnir í úrslitaleikinn í fyrsta sinn síðan 2010. Þar mæta þeir annað hvort Þór Þorlákshöfn eða Stjörnunni en staðan er 2:1 fyrir Þór í einvígi þeirra.

Erlendu leikmenn Keflavíkur, þeir Deane William, Calvin Burks Jr. og Dominykas Milka, skiptu stigaskoruninni bróðurlega á milli sín í kvöld og gerðu samtals 71 af 88 stigum heimaliðsins en Hörður Axel átti þrettán stoðsendingar í leiknum.

Frammistaða Keflvíkinga: Deane Williams 26/9 fráköst, Calvin Burks Jr. 23/4 fráköst, Dominykas Milka 22/13 fráköst/3 varin skot, Arnór Sveinsson 6, Valur Orri Valsson 5/4 fráköst/7 stoðsendingar, Hörður Axel Vilhjálmsson 3/7 fráköst/13 stoðsendingar, Ágúst Orrason 3, Magnús Pétursson 0, Reggie Dupree 0, Davíð Alexander H. Magnússon 0, Þröstur Leó Jóhannsson 0, Guðbrandur Helgi Jónsson 0.

Páll Orri Pálsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Blue-höllinni í kvöld og tók meðfylgjandi myndir sem eru í myndasafni neðar á síðunni.

Keflavík - KR (88:70) | Úrslitakeppni Domino's-deildar karla 7. júní 2021