Íþróttir

Keflvíkingar halda sínu striki
Joey Gibbs skoraði tvö gegn Þrótti og er kominn með tuttugu mörk í Lengjudeildinni. VF-mynd: Hilmar Bragi.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 21. september 2020 kl. 20:11

Keflvíkingar halda sínu striki

Joey Gibbs kominn með tuttugu mörk í deildinni

Keflavík tók á móti Þrótturum úr Reykjavík í Lengjudeild karla í dag. Keflvíkingar unnu sannfærandi sigur og eru komnir í efsta sæti deildarinnar.

Það var markamaskínan Joey Gibbs sem skoraði fyrsta mark leiksins á 16. mínútu eftir að Rúnar Þór Sigurgeirsson lék upp að endamörkum og gaf á Gibbs sem afgreiddi í netið.

Á 23. mínútu skoraði Adam Árni Róbertsson annað mark Keflvíkinga eftir slæm mistök Þróttara, Joey Gibbs fékk boltann og gaf á Adam í stað þess að reyna sjálfur sem skoraði auðveldlega af stuttu færi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Næstur að skora fyrir Keflavík var Nacho Heras sem skallaði boltann í mark Þróttara eftir góða aukaspyrnu Rúnars Þórs (35'). Staðan 3:0 í hálfleik og Keflvíkingar búnir að ráða lögum og lofum í fyrri hálfleik.

Keflavík hélt áfram að stjórna leiknum í seinni hálfleik og ef markvörður Þróttara hefði ekki sýnt hverja snilldarmarkvörsluna af annari hefðu Keflvíkingar getað sett fleiri mörk í upphafi seinni hálfleiks.

Joey Gibbs var réttur maður á réttum stað þegar 60 mínútur voru að líða af leiknum, hann stýrði þá boltanum í netið eftir að skalli Keflvíkinga flaut yfir á fjærstöngina. Tuttugasta mark Gibbs á leiktíðinni og hann fékk gullið tækifæri skömmu síðar til að setja þrennuna. Þá fengu Keflvíkingar víti sem Joey tók en markvörður Þróttar varði. Staðan áfram 4:0

Þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum skiptu Keflvíkingar fyrirliðanum Magnúsi Þór Magnússyni inn á en hann meiddist í upphafi tímabils og var að spila sinn fyrsta deildarleik í sumar.

Keflvíkingar gáfu fullmikið eftir á lokametrunum og á 79. mínútu náðu Þróttarar góðri skyndisókn sem endaði með marki. Þeir fengu svo víti í uppbótartíma (91') sem endaði í marki Keflvíkinga. Lokatölur 4:2.

Hilmar Bragi Bárðarson, ljómyndari Víkurfrétta, var á Nettóvellinum og tók myndirnar sem fylgja fréttinni.

Keflavík - Þróttur R. Lengjudeildin 21. september 2020