Toyota
Toyota

Íþróttir

Finnst ég vera orðinn hluti af samfélaginu
Super-Mario á æfingu með Njarðvíkingum. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 24. mars 2023 kl. 10:23

Finnst ég vera orðinn hluti af samfélaginu

– segir körfuknattleiksmaðurinn Mario Matasovic sem gekk til liðs við Njarðvík árið 2018 og þótt hann hafi ekki vitað hvað hann væri að ana út í þegar hann flutti til Íslands hefur Mario aðlagast vel að íslensku samfélagi. Mario og unnusta hans eiga nú von á barni en þau sjá fyrir sér að þau muni ílengjast hér eftir að körfuboltaferlinum lýkur.

Víkurfréttir settust niður með Super-Mario, eins og hann er gjarnan kallaður, og við ræddum lífið og tilveruna.

„Ég kom hingað sumarið 2018 svo þetta eru að verða fimm ár, langur tími,“ segir Mario. „Þetta hafa verið brjáluð fimm ár, með Covid og allt það. Ég held að Ísland hafi alls ekki verið versti staðurinn til að vera á í miðjum heimsfaraldrinum. Heima í Króatíu var ástandið miklu verra og þar þurfti að grípa til mun harðari aðgerða en hér. Svo Ísland var góður staður til að vera á.“

Nýsprautun sumardekk
Nýsprautun sumardekk

Uppvöxtur í skugga styrjaldar

Mario er fæddur í Króatíu árið 1993, um miðbik þess hryllilega stríðs sem var háð á Balkanskaga á árunum 1991 til 1995 eftir að Júgóslavía leystist upp. Mario elst því upp í skugga stríðshörmunga og við ræðum það lítillega.

„Já, ég fæddist ‘93, í miðju stríði. Augljóslega var ég of ungur til að muna eftir því en foreldrar mínir og eldri bróðir muna vel eftir þessum tíma. Mig rámar í hluti eins og hermönnum Sameinuðu þjóðanna úti um allt þegar ég var að fara í leikskólann, ég á nokkrar svona litlar minningar [flash back] en engar beinlínis úr stríðinu.“

Að alast upp í skugga stríðs hlýtur að hafa haft áhrif á þig, myndirðu ekki segja það?

„Auðvitað, þegar maður horfir á söguna þá eru tæplega þrjátíu ár síðan stríðinu lauk. Það er mjög stuttur tími í sögulegu samhengi. Afleiðinga stríðsins gætir víða, ekki aðeins í Króatíu heldur á öllum Balkanskaga, en ég tel að Króatíu hafi vegnað mun betur en hinum löndunum í þróun og uppbyggingu eftir þennan tíma. Fyrstu fimmtán árin eftir stríðið mátti sjá ummerki þess en núna er Króatía frábær staður til að vera á.“

Hvernig eru samskiptin milli þessara ríkja í dag, t.d. á milli Króatíu og Serbíu?

„Ég vil ekki blanda mér mikið í pólitík en ég held að stjórnmálamenn hafi mikið um það að segja að óvild sé enn til staðar milli Króatíu og Serbíu. Það þjónar kannski ekki þeirra tilgangi að samskipti þjóðanna skáni en ég held að almenningur sé tilbúinn að leggja þessa óvild alfarið til hliðar og halda áfram þaðan sem frá var horfið. Þetta hefur orðið betra með árunum og ég held að hlutirnir eigi bara eftir að batna eftir því sem fram líður.

Margir af mínum bestu vinum eru frá Serbíu. Við tölum aldrei um stríðið, við höfum ekki áhuga á því. Samt eru sumir sem komast ekki yfir þetta og vilja ekki eiga samskipti við aðra vegna þess að þeir eru af hinu eða þessu þjóðerni.“

Við ræðum hvernig hlutirnir breyttust yfir nótt, áður var Króatía og Serbía eitt land en á svipstundu var dregin lína milli landa og nágrönnum sagt að heyja stríð við hver við annan.

Mario á góðri stundu með fjölskyldunni sinni. Frá vinstri: Zeljko (pabbi), Ankica (mamma), Ivan (bróðir) og Mario.

Tapaði veðmáli

Hvernig var það þegar þú varst að alast upp, hvaða íþróttir æfðir þú?

„Ég kem úr mikilli íþróttafjölskyldu. Pabbi var markvörður í fótbolta í 25–30 ár og mamma var langhlaupari í jafnlangan tíma. Auðvitað vildi ég verða markvörður eins og pabbi en ég spilaði fótbolta ekki nema í eitt, tvö ár og hætti þá.

Mig minnir að Króatía hafi orðið ólympíumeistarar í handbolta árið 2004 [Króatía vann Þýskaland 26:24 í úrslitaleik] og þá varð sprenging í handboltaiðkun í Króatíu. Allir fóru að æfa handbolta og ég var einn þeirra, æfði handbolta kannski í þrjá mánuði,“ segir Mario hlæjandi. „Handboltafárið gekk yfir, allir hættu og ég stundaði engar íþróttir í nokkur ár.“

Mario segist alltaf hafa verið hávaxnari en flestir aðrir og hann fór að leika sér úti í körfubolta með vinum sínum.

„Svo gerðist það einn dag að ég spilaði við vin minn og við veðjuðum á leikinn. Veðmálið gekk út á að ef ég myndi vinna þá byrjaði hann að æfa með félagi, ef ég tapaði þá þyrfti ég að fara með honum á æfingu. Ég tapaði og þannig byrjaði ég í körfubolta. Ég hef verið svona fimmtán ára þegar ég þetta var – ekkert sérstaklega ungur en hér er ég nú.“

Tækifæri til náms í Bandaríkjunum

Mario kemur frá borginni Slavonski Brod sem er sjötta stærsta borg Króatíu og er staðsett mjög nærri serbnesku landamærunum.

„Við vorum með atvinnumannalið í Slavonski Brod, þótt það sé ekki lengur til staðar, og ég gekk til liðs við það. Eitt leiddi af öðru og við vorum nokkrir sem lékum með yngra liði félagsins þar sem við fengum tækifæri til að æfa með atvinnumönnum og þannig urðum við stöðugt betri.

Það er öðruvísi heima í Króatíu, eftir að hafa lokið skylduskólagöngu er nánast ómögulegt að halda áfram í námi samhliða því að vera atvinnumaður og ég stóð því á krossgötum, þurfti að velja milli íþróttaferils eða náms.

Eftir að hafa talað við fólk bauðst mér að fara til Bandaríkjanna á námsstyrk í eitt ár. Frábært tækifæri að fá að spila körfubolta og mennta mig á sama tíma.

Þetta var svolítið brjálað ár því þetta var herskóli einhversstaðar í Wisconsin – maður var vakinn klukkan hálfsex alla morgna, herbúningar og allur pakkinn. Það var allt mjög strangt þarna en ég vissi að ég yrði bara í eitt ár þarna og þyrfti að standa mig vel í körfubolta til að fá tilboð um námsstyrki. Ég fékk nokkur tilboð og ákvað að fara til Michigan og var þar í tvö ár en ákvað þá að skipta yfir til Sacred Hearts háskólans í Connecticut þar sem ég var í þrjú góð ár, glímdi við smávægileg meiðsli sem ég komst yfir og útskrifaðist í tölvunarfræði.“

Eftir að hafa lokið sínu námi fékk Mario tilboð frá Njarðvík og hann ákvað að slá til og er hér enn.

Super-Mario er illviðráðanlegur undir körfunni.

Hefurðu unnið við það sem þú lærðir eftir komuna hingað?

„Ekki fyrr en nýlega,“ segir Mario. „Fyrst þegar ég kom hingað var ég einn og auðvitað bara að spila körfubolta. Flest lið æfa bara einu sinni í eftirmiðdaginn og það hentaði mér ekki að hanga bara heima allan daginn, ég spila ekki einu sinni tölvuleiki. Ég var að ganga af göflunum af því að hanga einn heima, í ókunnu landi, með allt myrkrið og kuldann – ég held að margir erlendir leikmenn hafi svipaða sögu að segja. Eftir að hafa ákveðið að vera áfram hjá Njarðvík fór ég að huga að því að verða mér úti um hlutastarf og hef verið að vinna í Njarðvíkurskóla síðustu fjögur ár, allt þar til fyrir u.þ.b. tveimur mánuðum þegar ég fór að vinna í gagnaveri Verne Global. Þar fæst ég við það sem ég lærði og hef áhuga á, rafeindavirkjun og tölvunarfræði. Svo er ég líka að huga að framtíðinni en það kemur að því að körfuboltaferlinum lýkur og þá er gott að hafa einhverja reynslu á bakinu,“ segir Mario.

Mario og unnustu hans líður vel hérlendis en hún flutti til hans í sumar. Þau eiga von á syni í lok maí og lífið leikur við þau.

Hverjar eru framtíðaráætlanir ykkar, heldurðu að þið ílengist hér?

„Það er stefnan hjá okkur, hún er flutt til mín og komin með vinnu hjá bílaleigunni Geysi. Ég er búinn að vera hérna svo lengi, kann vel við mig hér og er að stofna fjölskyldu. Ég hef aðlagast þeirri menningu og siðum sem eru hér – mér finnst ég vera orðinn hluti af samfélaginu.

Þegar ég tók tilboðinu um að spila á Íslandi vissi ég ekkert hvað ég væri að fara út í – eitt leiðir af öðru og maður veit aldrei hvert lífið ber mann en eins langt og við sjáum inn í framtíðina þá ætlum við að vera hér.“

Og hvernig er íslenskan hjá þér?

Mario svelgist á vatnssopanum sem hann var að taka. „Hún er allt í lagi, ég segist alltaf vera að fara að læra meira en ég næ ekki að mótivera mig í það. Ég skil meira en ég tala, þegar maður er í kringum fólk alla daga pikkar maður upp ýmislegt af sjálfsdáðum. Hins vegar eru allir svo góðir í ensku hérna að maður fær í sjálfu sér ekkert of mörg tækifæri til að spreyta sig á íslenskunni.“

Mario og Valerija, unnusta hans, eru að stofna fjölskyldu en þau eiga von á syni í lok maí. Þau stefna á að eiga framtíðarheimili sitt hér eftir að körfuboltaferli Mario lýkur.

Kemur ef Njarðvík fer alla leið

Hafa foreldrarnir heimsótt þig hingað?

„Mamma var hér fyrir tveimur árum, vinir mínir hafa líka heimsótt mig en pabbi hefur ekki ennþá komið. Hann er svo flughræddur að hann segir að eini sénsinn til að hann komi sé ef við komumst í úrslitaleikinn – svo ég verð að nota það sem hvatningu.

Bróðir minn og mágkona ætla að koma í byrjun úrslitakeppninnar og dvelja hér í viku. Þau hafa aldrei komið hingað áður.“

Mario er sjálfur búinn að sjá helstu ferðamannastaðina á Íslandi og hann segir norðurljósin hafa heillað hann sérstaklega þegar hann kom til Íslands.

„Eins og aðrir útlendingar var ég alveg dolfallinn þegar ég sá norðurljós fyrst. Núna er ég orðinn eins og heimamenn, það er varla að ég nenni að rífa mig upp úr sófanum til að glápa upp í himininn í hvert skipti sem norðurljósin glenna sig.“

Það var létt yfir mannskapnum á æfingu í Ljónagryfjunni þegar ljósmyndari VF var á ferðinni.

Hefur góða tilfinningu fyrir úrslitakeppninni

Njarðvíkingar hafa verið á góðri siglingu í Subway-deild karla og eru jafnir Val að stigum í harðri baráttu um deildarmeistaratitilinn en þessi lið mætast í Ljónagryfjunni á föstuudagskvöld í næstsíðustu umferð deildarinnar.

„Ég hef auðvitað góða tilfinningu fyrir úrslitakeppninni, eins og staðan er á liðinu er ekki annað hægt. Við erum á góðum stað í deildinni, liðið er samþjappað og það er góður andi yfir Njarðvík. Eftir áramót, eftir að allir höfðu náð heilsu, þá held ég að við höfum sýnt úr hverju við erum gerðir. Við erum ennþá að sýna það, erum á sigurbraut og liðsandinn er einstaklega góður. Núna eigum við tvo erfiða deildarleiki eftir [gegn Val og Keflavík] svo það má segja að úrslitakeppnin sé hafin hjá okkur.

Margir okkar hafa spilað lengi saman og fleiri góðir leikmenn hafa bæst í hópinn, við erum að sýna það á vellinum. Sem lið náum við vel saman innan vallar sem utan. Engin vandamál, okkur líður vel á æfingum, förum ánægðir heim og ég held að stuðningsmennirnir okkar finni það þegar við erum að spila. Þegar öllur er á botninn hvolft er þetta það sem skiptir máli,“ sagði Mario að lokum.