Íþróttir

„Eru tilbúnar að fórna miklu“
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 3. maí 2022 kl. 07:48

„Eru tilbúnar að fórna miklu“

„Við erum ekkert með stærsta hóp í heimi,“ segir Gunnar M. Jónsson, þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Keflavík. „Við erum með margar heimastelpur í liðinu, margar ungar og efnilegar stelpur sem hafa verið að spila með okkur í vetur og fengið alveg ótrúlega mikla og góða reynslu. Þetta er það sem við höfum verið að leggja áherslu á – að spila á okkar heimastelpum.“

Besta deild kvenna fer í gang í þessari viku og fyrir tímabilið virðast fáir hafa mikla trú á Keflavíkurliðinu. Gunnar blæs á þá spádóma og segir: „Þetta er flottur hópur og væntingarnar eru að gera betur í sumar en allar spár segja til um,“ segir hann en allir helstu sparksérfræðingar spá Keflavík neðsta sæti Bestu deildarinnar í ár. „Það er kannski ekkert óeðlilegt miðað undirbúningstímabilið þó það hafi alls ekki verið alslæmt. Það telur ekkert í Íslandsmóti og það er hugur og spenningur í stelpunum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sóknarmaðurinn Ana Paula Santos Silva er fædd í Brasilíu en hefur leikið í bandaríska háskólaboltanum undanfarinn fimm ár þar sem hún var meðal annars valin leikmaður ársins fjögur ár í röð af SSAC-sambandinu í háskólaboltanum og besti leikmaður NAIA 2020 og 2021. „Mjög teknískur og öflugur leikmaður og við væntum mikils af henni í sumar,“ segir Gunnar og Silva sýndi heldur betur sínar bestu hliðar í fyrsta leik sínum og skoraði þrennu þegar Keflavík lagði KR í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna.


Það eru miklar breytingar á hópnum hjá Keflavík frá síðasta tímabili en Gunnar segir að níu leikmenn sem voru að spila mikið í fyrra séu farnir frá félaginu. Á móti hafa þrír útlendingar komið inn í staðinn, Elín [Helena Karlsdóttir] verður áfram á láni frá Breiðabliki og Sigurrós Eir [Guðmundsdóttir] er komin aftur eftir barneign.

„Þetta er lítill en þéttur hópur og það á eflaust eitthvað eftir að bætast við hann,“ segir Gunnar en Keflavík hefur alla vega tvo leikmenn í sigtinu sem vonast er til að verði hægt að ná samkomulagi við á næstu dögum.

Við Suðurnesjamenn þurfum að hafa fyrir hlutunum og það verður allt lagt í þetta. Stelpurnar eru undirbúnar fyrir harða baráttu, þær eru tilbúnar að fórna miklu og leggja sig fram fyrir félagið. Þetta eru framtíðarstelpur, góðar í fótbolta en eiga eftir að þurfa að leggja mikið á sig í sumar.“

Markvörðurinn Samantha Leshnak á mjög flottan feril að baki en hún spilaði m.a. með University of North Carolina við góðan orðstír en hún lék í landsúrslitum fyrir sinn skóla árið 2018. Árið 2019 samdi hún við bandaríska atvinnumanna- og meistaraliðið North Carolina Courage og varð meistari með liði sínu í NWSL-deildinni í Bandaríkjunum. Það mun án efa mæða mikið á Samantha í sumar en Gunnar segir hana leikmann af háum standard.