Íþróttir

Engan hroka í fangbragðagreinum
Kynslóðaskipti. Bjarni Darri Sigfússon og Heiðrún Fjóla Pálsdóttir taka við yfirþjálfarastöðum glímudeildarinnar af Guðmundi Stefáni Gunnarssyni.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 3. apríl 2021 kl. 08:12

Engan hroka í fangbragðagreinum

– Áttum ekki samleið með Júdósambandinu

Guðmundur Stefán Gunnarsson var meðal þeirra sem stofnuðu júdódeild Njarðvíkur fyrir rúmum tíu árum. Á þeim tíma hefur hann verið yfirþjálfari deildarinnar og náð frábærum árangri sem slíkur en nú er komið að tímamótum hjá honum og deildinni. Guðmundur hefur látið af starfi sem þjálfari og tók við formennsku á síðasta aðalfundi. Júdódeild Njarðvíkur hefur einnig tekið breytingum en hún er nú glímudeild Njarðvíkur og hefur sagt sig úr Júdósambandi Íslands.

„Þetta var orðið gott, ég meina þetta er áhugamálið mitt og nú ætla ég að vera gamli kallinn sem mætir bara á æfingar, sleppir upphitun og fær svo að taka eina og eina glímu,“ segir Guðmundur. „Ég er auðvitað í fullri vinnu og á fjölskyldu, svo á endanum hefur maður ekki úthald í að vinna fullan vinnudag og taka svo allar æfingar þar fyrir utan – þá er ekkert eftir.

Það eru flottir þjálfarar sem taka við keflinu, þau Heiðrún Fjóla Pálsdóttir og Bjarni Darri Sigfússon. Þau hafa bæði stundað glímuíþróttir lengi og eru sennilega með þeim allra bestu á landinu fullyrði ég.“

Guðmundur er samt ekki hættur öllum afskiptum af deildinni, á síðasta aðalfundi var hann kosinn formaður deildarinnar og segist hafa fengið mjög góðan hóp með sér í stjórn.

„Ég var nú kannski ekki tilbúinn til að sleppa algerlega höndum af starfi deildarinnar og ætla að einbeita mér nú að frekari uppbyggingu hennar. Hjá okkur er nú um áttatíu iðkendr sem stunda reglulegar æfingar, svo erum við líka með fjölmennan hóp iðkenda af pólskum uppruna og höfum lagt mikla áherslu á þann kjarna. Sem dæmi erum við með sér æfingar fyrir pólska krakka og höfum pólskan þjálfara. Svo æfa allir hópar saman líka, íslenski, pólskir og að öðru þjóðerni. Við byrjuðum með þessar æfingar til að ná til pólskra krakka sem okkur fannst vanta inn í íþróttastarfið í bænum en þessi hópur, eins og flestir vita, skipar orðið stórt hlutfall íbúa í Reykjanesbæ.“

Andi ungmennafélaganna

„Það var ákvörðun fyrri stjórnar að segja sig úr Júdósambandinu og ég hafði í raun ekkert um það að segja,“ segir Guðmundur. „Deildin hefur verið aðili að báðum samböndum, Júdósambandinu og Glímusambandi Íslands, en við stundum báðar þessar greinar – við æfum í raun allar glímu- og fangbragðaíþróttir í Njarðvík.“

Njarðvíkingar hafa náð góðum árangri í fjölgun þátttakenda síðan deildin var stofnuð og hóf æfingar fyrir tíu árum síðan. Guðmundur segist einna ánægðastur með hvernig kynjaskipting hefur þróast meðal þeirra sem æfa hjá félaginu en það er nánast hnífjafnt hlutfall karl- og kveniðkenda glímudeildar Njarðvíkur.

„Deildina stofnuðum við á grunni júdódeildar UMFK og það gekk bara vel. Það er frekar auðvelt að stofna svona deild ef íþróttin er þekkt í samfélaginu. Við stofnuðum deildina árið 2010 og hófum æfingar í janúar 2011. Deildin var stofnuð í anda ungmennafélagshugsjónarinnar; t.a.m. er öll óregla er óheimil í æfinga- og keppnisferðum, það er í lögum félagsins. Við vildum stofna deild sem væri nokkurs konar félagsmiðstöð, þangað sem allir gætu leitað og liðið eins og þeir væru velkomnir. Hjá okkur fer enginn iðkandi í gegnum gráðupróf nema hann sé búinn að ná tökum á eigið egói og geti skilið hrokann eftir í búningsklefanum.“

Frá æfingu pólska krakkahópsins.

Áttu ekki samleið

Guðmundur segir að samskiptin við Júdósambandið hafi í raun aldrei verið góð. Njarðvíkingum hefur þótt sambandið hunsa starf deildarinnar og ýmis ágreiningsmál hafa komið upp á þessum tíu árum.

„Það er í raun svolítið fyndið en Júdósambandið heiðraði mig og afhenti heiðursskjöld fyrir útbreiðslustarf, það var um ári eftir að deildin var stofnuð og þá hafði í raun ekkert gerst ennþá. Það er eina skiptið sem ég hef fengið einhverja viðurkenningu frá sambandinu,“ segir Guðmundur og hlær. „Svo fór ég einhvern tímann í stjórn JSÍ og þá var verið að senda alls kyns vafasama náunga með landsliðum í keppnisferðir. Þegar ég segi vafasama þá meina ég að þetta voru menn sem fóru á fylleríi í ferðum þar sem þeir áttu að vera að gæta barna og ungmenna. Ég var ekki sáttur við það og fór því að fara sjálfur með mína keppendur, bókaði flug og gistingu sjálfur og þegar upp var staðið urðu ferðirnar talsvert ódýrari en þær höfðu verið þegar sambandið sá um þau mál. Jafnvel þótt styrkur fengist frá sambandinu var ódýrara fyrir okkur að ferðast á eigin vegum en keppa með þeim.

Það hafa komið upp ágreiningsmál milli okkar og sambandsins og var komin ákveðin kergja í öll samskipti en okkur hefur þótt undarlegt að Júdósambandið skuli ekki fara eftir þeim reglum sem það setur sér, það á t.d. við um gráðuveitingar, val í landslið og fleiri mál. Núna stýrum við okkar þjálfun sjálf og gráðuprófum sjálf, enda er ég og fleiri af þjálfurum deildarinnar með svart belti og höfum réttindi til þess að láta iðkendur þreyta próf – og jafnvel þótt Júdósamband Íslands komi ekki til með að samþykkja gráðanir þá mun það ekki hafa áhrif á nokkurn hátt á deildina,“ segir Guðmundur að lokum.

Keppendur Njarðvíkur hafa staðið sig vel í þeim landsliðsverkefnum sem þeir hafa verið valdir til að taka þátt og verið sigursælir á þeim mótum sem þeir hafa keppt í, bæði í krakka- og fullorðinsflokkum. Guðmundur horfir björtum augum til framtíðar glímudeildarinnar og er spenntur fyrir þeim verkefnum sem bíða.