Íþróttir

Ekkert gengur hjá Víðismönnum
Hólmar Örn Rúnarsson, spilandi þjálfari Víðis, í leik gegn Njarðvík fyrr í sumar. Hann stendur frammi fyrir miklum vanda að finna lausn á sóknar- og varnarleik Víðis sem hefur verið slakur í sumar. Mynd úr safni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 27. júlí 2020 kl. 14:24

Ekkert gengur hjá Víðismönnum

Víðir mætti Haukum í gær á Nesfisk-vellinum og Víðismenn mættu ákveðnir í að snúa löku gengi sínu í 2. deild karla við. Í fyrri hálfleik var jafnræði með liðunum og Víðismenn fengu ágætis tækifæri til að komast yfir í leiknum en eins og fyrr gengur þeim illa að koma tuðrunni í netið.

Það var því markalaust í hálfleik en á 54. mínútu brast vörn Víðis og Haukar komust yfir. Þeir bættu öðru marki við á 69. mínútu og sigruðu því 2:0.

Sólning
Sólning
Þegar að við fáum á okkur mörk verðum við svolítið litlir

Hólmar Örn Rúnarsson, þjálfari Víðis, sagði eftir leikinn í viðtali við Fótbolti.net að þeir væru að vinna í að bæta varnarleikinn. „Síðan þegar að við fáum á okkur mörk verðum við svolítið litlir.“ Þá hefur hann einnig áhyggjur af sóknarleik liðsins sem nær ekki að nýta þau færi sem hafa skapast.

Lítið hefur gengið hjá liðinu að skora og Víðir er með langlökustu markatöluna í 2. deildinni, hafa fengið á sig 23 mörk en aðeins skorað fjögur, og sitja í þriðja neðsta sæti með sex stig. Aðeins munar nú einu stigi á Víði og Dalvík/Reyni sem gerði jafntefli við Njarðvík.