Fréttir

Virkni eldgossins og jarðskjálftavirkni við það sama
Frá eldstöðinni í Meradölum. VF-myndir: Haukur Hilmarsson
Föstudagur 12. ágúst 2022 kl. 17:14

Virkni eldgossins og jarðskjálftavirkni við það sama

Litlar breytingar eru á virkni eldgossins og jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga við það sama. Veðurspáin gerir ráð fyrir hægum vindi og þurrki að mestu næstu daga. Þetta kemur fram í stöðuskýrslu frá almannavörnum

Enn er lögð áhersla á að lagfæra göngu- og neyðarleiðir á svæðinu, m.a. að setja ljós á helstu gönguleiðina og bæta stíga til að koma í veg fyrir slys og að fólk villist af leið. Vegna hættu á grjóthruni á ákveðnum svæðum á gönguleiðinni er unnið með stærri vélum utan þess tíma sem flest göngufólk er á svæðinu. Viðvera viðbragðsaðila á svæðinu er í lágmarki eftir miðnætti á kvöldin.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Umhverfisstofnun metur leyfisumsóknir vegna aksturs á slóðanum að gosstöðvunum og miklar takmarkanir eru á leyfisveitingum. Leyfin eru tímasett og gilda tímabundið. Vegurinn á svæðinu er mjög viðkvæmur og þau sem aka um vegina án leyfis geta átt von á sekt fyrir utanvegaakstur.

Unnið er að áætlunum fyrir svæðið, þ.á.m. bættum merkingum. Samhæfing vegna mikilvægra innviða hefur verið viðamikil, sér í lagi vegna mögulegs hraunflæðis og er þar unnið með viðeigandi stofnunum. Samvinna með vísindafólki og sérfræðingum er mikil og stöðugt samráð í gangi.

Björgunarsveitafólk mannar vöktun á svæðinu til að tryggja öryggi við gosstöðvarnar og unnið er að langtímaáætlun á þessari vöktun. Unnið er að því í samstarfi við Umhverfisstofnun og yfirvöld að tryggja aðkomu og störf landvarða á gosstöðvunum.