Fréttir

Uppsagnir í vændum vegna vátíðinda hjá WOW air
Miðvikudagur 28. nóvember 2018 kl. 16:25

Uppsagnir í vændum vegna vátíðinda hjá WOW air

WOW air mun fækka í flota sínum um fjórar Airbus vélar. Þessi aðgerð er hluti af endurskipulagningu á rekstri félagsins en legið hefur fyrir að minnka þurfi flotann til þess að auka hagkvæmni, draga úr árstíðarsveiflu og hámarka arðsemi. Um er að ræða tvær Airbus A320 vélar og tvær Airbus A330 vélar sem ekki hefðu nýst sem skildi í vetraráætlun WOW air.  Þá skal jafnframt taka fram að hagræðing þessi mun ekki hafa áhrif á áform WOW air um að fljúga til Indlands en flug þangað hefst 6. desember næstkomandi. Svo segir í tilkynningu frá félaginu.

Sigþór Skúlason, framkvæmdastjóri Airport Associates [APA], félags sem hafði mest 700 manns í vinnu í flugafgreiðslu í sumar, segir að fylgst sé grannt með stöðu mála á hverjum degi. APA er stærsti þjónustuaðili WOW air.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Víkurfréttir sögðu frá því á vf.is nýlega að WOW myndi skera niður um 8 flugvélar en það var staða uppi á borðinu nýlega samkvæmt áreiðanlegum heimildum VF. Vitað er að fleiri vélar eru að fara í leiguverkefni en þessar fjórar sem á að fækka um. Það er því ljóst að rekstur félagsins, ef það lifir, mun dragast saman verulega hér á landi.

Forráðmenn verkalýðsfélaganna á Suðurnesjum hafa einnig fengið að fylgjast með þróun mála hjá WOW air en miðað við þessi tíðindi er líklegt að einhverjar uppsagnir verði í tengslum við samdrátt eða þaðan af verra hjá WOW.