Karlakórinn
Karlakórinn

Fréttir

Þurfum að líta á þetta sem langhlaup sem er nýhafið
Frá fundinum með atvinnurekendum í Grindavík. VF/hilmarbragi
Fimmtudagur 14. mars 2024 kl. 11:45

Þurfum að líta á þetta sem langhlaup sem er nýhafið

segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor

„Það gæti loftsteinn útrýmt öllu lífi á jörðinni en viljum við lifa samkvæmt því,“ spyr Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor við jarðvísindadeild Háskóla Íslands. Hann hélt tölu á fundi sem Atvinnuteymi Grindavíkur stóð fyrir í Grindavík í síðustu viku, fundur sem var fyrir atvinnurekendur í Grindavík. Magnús fór yfir stöðuna á jarðhræringum og svaraði spurningum úr sal. Að fundi loknum mætti hann í viðtal hjá Víkurfréttum.

Jarðfræðingar hafa ekki allir verið á sama máli um hvað gekk á föstudaginn örlagaríka í nóvember, þann tíunda. Hversu mikil hætta var á eldgosi þá í bæjarstæði Grindavíkur og hver er hættan í dag?

„Ef við ætlum að meta líkur á eldgosi undir Grindavík er kannski best að skoða söguna en frá því að jökla leysti hefur aldrei verið eldgos í sjálfri Grindavík, það hefur næst gosið rúmum kílómetra frá sjó. Það sem við sáum 10. nóvember, kvikan fór miklu lengra þá, svipað og gerðist í Kröflueldum, þá náði kvikan miklu lengra norður en svo endaði á að gjósa nálægt miðju. Ástæðan fyrir því er að  kvikan fer upp þar sem er auðveldast fyrir hana að komast upp. Í Kröflueldum fór kvikan alla leið norður í Kelduhverfi en það gaus ekki þar en það segir ekki að það hefði ekki getað gerst. Hegðunin er í raun eins hér, þetta eru tvær plötur má segja, Evrasíuplatan og Norður-Ameríkuplatan, plötumótin liggja hér eftir sunnanverðum skaganum. Svartsengi og Fagradalsfjall er m.a. á þessum plötuskilum og þegar þetta gliðnar í sundur, verður auðveldast fyrir kvikuna að komast þar upp. Þess vegna er mest fjalllendi þar, upphleðslan er mest þar. Það útilokar hins vegar ekki að það geti ekki gosið sunnar og norðar, reynslan sýnir okkur bara að það gýs alltaf nær miðjunni. Sprungan sem við fengum í janúar, er sennilega sú sprunga sem getur næst gosið úr við Grindavík, þó er auðvitað ekki hægt að útiloka neitt í þessum efnum. Ástæðan er aftur, það er erfiðara fyrir kvikuna að komast upp á endunum á þessum kvikugöngum. Þennan 10. nóvember var mjög mikið magn kviku sem fór af stað og undir Grindavík en af því að það varð svo mikil gliðnun, var svo mikið rými neðanjarðar sem kvikan fyllti upp í, þess vegna varð ekkert eldgos. Þetta höfum við oft séð í gegnum aldirnar, þetta gátum við hins vegar ekki vitað 10. nóvember og þess vegna var bærinn rýmdur. Eftir á að hyggja hefðum við átt að gera það fyrr en það er oft auðvelt að vera vitur eftir á. Daginn eftir rýminguna sáum við að viss hætta var fyrir hendi, þess vegna var bærinn rýmdur og varðskipið Þór færði sig fjær Grindavík.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Varðandi hættuna akkúrat í dag, kvikan sem fór undir Grindavík 10. nóvember er að langmestu leyti storknuð, hún er samt ennþá heit en það er líklegt að gliðnunin undir bænum sé komin í hámark, að það séu ekki meiri kraftar í að toga meira í sundur, þó gæti einhver gliðnun átt sér stað en það eru meiri líkur á að gliðnunin undir Grindavík sé að mestu búin. Aftur er ekkert hægt að útiloka í þessu, mestar líkur eru samt á því að þetta fari bara beint upp, þ.e. á svipuðum slóðum og síðasta eldgos kom upp. Í síðustu tveimur eldgosum varð mun minni magn af kviku eftir í jarðskorpunni sem bendir til að plássið neðanjarðar sé orðið minna og kvikan leiti þá frekar upp, þá eru mestar líkur á að hún komi beint upp,“ segir Magnús Tumi.

Langhlaup framundan

Fundurinn var fyrir atvinnulífið, Magnús Tumi sér ekkert til fyrirstöðu að atvinnustarfsemi hefjist sem fyrst svo fremi sem innviðir séu í lagi. „Öll fyrirtækin í Grindavík eru greinilega komin með góðar viðbragðsáætlanir, það hefur verið unnin mjög góð vinna í þeim efnum og þess vegna tel ég það ásættanlega áhættu að hefja hér starfsemi. Fyrirtækin eru tilbúin að rýma á skömmum tíma, fólk á að geta gengið frá og komið sér í burtu áður en hætta steðjar að, þetta er ásættanleg áhætta að mínu mati. Þannig er hægt að nýta kannski 80 - 90% tímans og halda framleiðslu gangandi, þetta minnkar tjónið og eykur ekki áhættuna svo heitið getur.“

Um komandi misseri í Grindavík segir Magnús Tumi:

Tímaramminn á eldgosi er þannig að ég geri ráð fyrir atburði á næstunni, það er nákvæmlega sama hegðun í gangi núna eins og verið hefur og því eðlilegt að gera ráð fyrir öðrum atburði. Í hversu langan tíma þetta ástand mun vara er ómögulegt að segja til um en ef við teljum að svipað magn af kviku komi upp núna og fyrir 2000 árum, erum við búin með á bilinu1/6 til 1/10 af því ferli, sem segir okkur að það eru nokkur ár eftir, við þurfum að líta á þetta sem langhlaup sem er nýlega hafið. Það geta líka komið tímabil þar sem allt er með kyrrum kjörum í einhvern tíma en svo byrjar ballið aftur. “

Nánar er rætt við Magnús Tuma í Sjónvarpi Víkurfrétta í spilaranum hér að neðan.