Nettó
Nettó

Fréttir

Þrjú hundruð þúsund frá unglingaráðinu til Stuðla
Unglingaráð Fjörheima.
Laugardagur 25. maí 2019 kl. 12:00

Þrjú hundruð þúsund frá unglingaráðinu til Stuðla

Unglingaráði Fjörheima tókst að safna 290 þúsund krónum til styrktar Stuðlum á góðgerðarkvöldi sem haldið var í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í síðustu viku. Vegna mikillar umræðu um fíkniefni og skaðleg áhrif þess í samfélaginu síðustu misseri var ákveðið að ágóði kvöldsins rynni til Stuðla en þau bjóða upp á greiningar- og meðferðarúrræði fyrir unglinga sem glíma meðal annars við vímuefnavanda og hegðunarörðugleika.

Unglingaráð Fjörheima samanstendur af fimmtán ungmennum sem koma víðs vegar af Suðurnesjum en góðgerðarkvöldið var opið öllum þeim sem áhuga höfðu. Sigga Dögg kynfræðingur og Sólborg Guðbrandsdóttir, stofnandi Instagram-síðunnar Fávitar, fluttu erindi og Júlíus Viggó Ólafsson sá um tónlistaratriði. Sigga Kling endaði svo kvöldið fyrir gesti.

Unglingaráðið sá um að safna vinningum fyrir happdrættið sem haldið var í FS og fékk fjárstyrk frá Samkaup og Íslandsbanka. Þá styrktu Sigurjónsbakarí og Kökulist viðburðinn með veitingum og Draumaland gaf blóm. Unglingaráðið þakkar styrktaraðilum kærlega fyrir ómetanlegan stuðning.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs