Fréttir

Teljum að hinir flokkarnir eigi að líta til okkar í samstarfi
Hallfríður Hólmgrímsdóttir, oddviti Miðflokksins í Grindavík.
Mánudagur 16. maí 2022 kl. 17:25

Teljum að hinir flokkarnir eigi að líta til okkar í samstarfi

- segir oddviti Miðflokksins í Grindavík

„Þetta kom okkur á óvart. Við höfum unnið alveg gríðarlega vel á kjörtímabilinu og ég fann að það var meðbyr með okkur. Ég gerði mér væntingar um að ná inn öðrum manni og að við yrðum tvö en mig óraði ekki fyrir því að við yrðum þrjú og sigurvegarar kosninganna. Langstærsti flokkurinn,“ segir Didda, Hallfríður Hólmgrímsdóttir, oddviti Miðflokksins í Grindavík. Miðflokkurinn var ótvíræður sigurvegari bæjarstjórnarkosningar í bænum og fékk þrjá bæjarfulltrúa. Sjálfstæðisflokkurinn fékk tvo, Framsóknarflokkurinn einn og Rödd unga fólksins einn.

- Eruð þið að fara í meirihlutasamstarf eða eru hin framboðin að raða sér upp á móti ykkur?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Ég vona nú að það sé einhver misskilningur. Ég sá umræðu um þetta í morgun. Ég ætla nú rétt að vona að fólk eða flokkarnir hér í bæ séu að fara gegn vilja fólksins. Ég trúi því eiginlega ekki, ekki fyrr en að það sé að fullu reynt með meirihlutasamstarf með Miðflokknum. Ég ætla rétt að vona að þetta sé bara stormur í vatnsglasi.“

- Eruð þið að ræða við einhverja.

„Já, þetta er á viðkvæmu stigi. Það er hægt að orða það þannig að það séu þreifingar í gangi en ekkert verið fundað formlega. Við teljum samt að hinir flokkarnir eigi að líta til okkar í samstarfi. Ég geri ráð fyrir að menn reyni að ná saman við okkur áður en þeir fara að reyna eitthvað annað. Ég trúi ekki öðru en að það verði niðurstaðan að það fari fram formlegir fundir með okkur áður en þeir fari saman í sæng með hinum.“

Nánar verður rætt við oddvita Miðflokksins í Grindavík í Víkurfréttum vikunnar.