Nettó
Nettó

Fréttir

Sorpeyðingarstöð Suðurnesja 40 ára: Sorphirða á tímamótum
Mánudagur 1. október 2018 kl. 08:58

Sorpeyðingarstöð Suðurnesja 40 ára: Sorphirða á tímamótum

- íbúar á Suðurnesjum ráðast í endurvinnslu

Á þessu ári eru liðin 40 ár frá stofnun Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. Aðdragandinn að stofnun félagsins var að samstarf náðist við varnarmáladeild Utanríkisráðuneytisins um að sveitarfélögin tækju að sér sorpeyðingu fyrir Varnarliðið. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og í dag rekur fyrirtækið Kölku, fullkomnustu og reyndar einu sorpbrennslustöð landsins í Helguvík þar sem árlega er brennt um 12.000 tonnum af sorpi frá Suðurnesjum.
 
Reykjanesbær, Grindavíkurbær, Sameinað sveitarfélag Garðs og Sandgerðis og Sveitarfélagið Vogar eiga og reka Sorpeyðingarstöð Suðurnesja sf. Tilgangur félagsins er að eiga og reka hina nýju móttöku-, flokkunar- og eyðingarstöð Kölku í Helguvík. Ennfremur að annast þjónustu og á sviði sorphirðu og móttöku úrgangs í sveitarfélögunum og önnur verkefni sem sveitarfélögin kunna að fela félaginu, á sviði úrgangs og endurvinnslumála.
 
Frá og með 1. apríl 2004 flutti starfsemin í nýja  móttöku-, flokkunar- og eyðingarstöð í Helguvík sem ber nafnið Kalka. Þar fer fram öll móttaka á sorpi frá sveitarfélögunum og fyrirtækjum á starfssvæði stöðvarinnar. Þar er einnig rekið gámasvæði fyrir almenning sem og í Grindavík og Vogum, þar sem íbúar svæðisins geta komið með úrgang frá heimilum til endurvinnslu og eyðingar.
 
Kalka, sem var tekin í notkun 2004 getur brennt allt að 12.300 tonnum úrgangs á ári er með mjög fullkomin hreinsunarbúnað til að halda mengun frá stöðinni í algjöru lágmarki.
 
Annar úrgangur sem til fellur á Suðurnesjum um 6.000 tonn verður að stærstum hluta sendur í endurvinnslu. Auk þess að þjóna sveitarfélögunum fimm á Suðurnesjum tekur Kalka á móti úrgangi frá gamla varnarsvæðinu og flugþjónustusvæðinu á Keflavíkurflugvelli.  Þá er stöðin einnig útbúin til að eyða sóttmenguðum úrgangi sem og ýmsum flokkum spilliefna sem falla til hér á landi.
 
Gamla stöðin við Hafnaveg sem byggð var árið 1979, var á margan hátt fullkomin á sínum tíma og mikil bylting í sorpmálum Suðurnesjamanna en lauk hlutverki sínu eftir tæplega 25 ára farsæla þjónustu. Hin nýja stöð er ekki síður mikil bylting og færir Suðurnesjamenn í fremstu röð á sviði meðhöndlunar, endurvinnslu og förgunar úrgangs.


 
Víkurfréttir tóku hús á Jóni Norðfjörð, framkvæmdastjóra Kölku, og ræddu við hann um fyrirtækið á þessum tímamótum. 
 
„Já, það er rétt. Árið 1978 var fyrirtækið stofnað í samvinnu við Varnarliðið til að brenna sorpi. Það var byggð brennslustöð á svæði Varnarliðsins. Sú stöð dugði til ársins 2004 en þá tók þessi stöð við sem við erum í núna, Kalka og hefur verið starfrækt hér í fjórtán ár,“ segir Jón Norðfjörð.,
 
Svona brennslustöð er einsdæmi á Íslandi.
 
„Já, þessi stöð var valin því hún hafði mjög góðar mengunarvarnir, þær bestu sem við búum við í dag. Stöðin hefur dugað vel sem slík og fengið frið með starfsemi sína. Hér sést nánast aldrei reykur og allur útbúnaður er mjög góður í stöðinni“.
 
Hvers vegna var ákveðið að fara þessa leið, að brenna sorpi á Suðurnesjum?
 
„Það var vegna nábýlis við Varnarliðið sem hafði takmarkanir um það hvernig ætti að eyða sorpinu. Þá þótti bennslan henta best og Varnarliðið tók fullan þátt í þessu verkefni með sveitarfélögunum á Suðurnesjum þegar stöðin var byggð við Hafnaveg. Það gerðist einnig árin 2003-4 þegar þessi stöð í Helguvík var byggð. Þá var Varnarliðið hér enn og tók þátt í byggingu stöðvarinnar.
 
Þegar Varnarliðið hvarf á braut árið 2006 urðu tímamót í rekstri sorpeyðingarstöðvarinnar. Eftir að Varnarliðið fór varð reksturinn þyngri og erfiðari og uppúr árinu 2010 þurfti að gera róttækar ráðstafanir til að laga reksturinn og koma honum til betri vegar. Í dag gengur þetta fyrirtæki vel og allur rekstur er í mjög góðu lagi“.

 
Það má segja að það séu talsverð tímamót núna og breytingar í sorphirðu á Suðurnesjum.
 
„Við stöndum á tímamótum núna að því leyti að það hefur verið kallað eftir því að við færum í að flokka úrgang við heimili á Suðurnesjum. Fram til þessa hefur verið tregða til að fara í þetta verkefni vegna þess að við höfum þurft að tryggja stöðinni nægilegt brennsluefni og við höfum ekki verið nægilega aflögufær með það til að geta haldið stöðinni gangandi allan sólarhringinn alla daga ársins. Nú hefur orðið töluverð aukning í úrgangi og á þeim grundvelli sjáum við okkur fært að ráðast í þetta verkefni, fara í meiri flokkun og skapa rými í stöðinni fyrir annað brennsluefni“.
 
Hvernig verða íbúar varir við þessar breytingar og flokkunina?
 
„Þeir fá til sín grænar tunnur og leiðbeiningar um það hvað megi setja í þessar tunnur. Leiðbeiningnar og tunnur eiga nú að hafa borist til allra heimila á Suðurnesjum. Björgunarsveitinar á Suðurnesjum tóku að sér þetta verkefni. Þetta er mikið verkefni sem björgunarsveitarfólkið hefur verið að vinna að í aukatíma sínum, þannig að fólk hefur sýnt því þolinmæði“.
 
Það verður breyting á sorphirðu samhliða grænu tunnunni?
 
„Það lengist sorphirðutíminn úr tíu dögum í tvær vikur eða fjórtán daga og verður því reglubundnari af því leyti. Nú eru komnar tvær tunnur við hvert heimili og það gefur svigrúm til að losa sjaldnar. Fólk þarf að átta sig á þessu og mun gera það mjög fljótt“.

 
Verður þetta ekki eins og að kenna gömlum hundi að sitja að kenna Suðurnesjamönnum að flokka sorp?
 
„Nei, ég held ekki. Við finnum fyrir því að fólk tekur þessu almennt mjög vel og nú þegar eru margir sem hafa verið að flokka og koma með til okkar flokkaðan úrgang sem við höfum tekið á móti, t.d. bylgjupappa, dagblöð, tímarit og ýmislegt fleira. Þá höfum við verið að flokka á plönunum okkar sem við köllum endurvinnsluplön“.
 
Þið eruð með endurvinnsluplön við Kölku í Helguvík en einnig í Vogum og Grindavík. Hvernig er þetta að koma út?
 
„Þetta er að koma vel út og við fáum margar heimsóknir. Að meðaltali eru þetta um tvö þúsund heimsóknir á mánuði. Við erum með opið í Helguvík alla daga frá kl. 13 til 18 nema sunnudaga og það hefur reynst mjög vel. Svo eru aðrir opnunartímar í Grindavík og Vogum“.

Hvað gera fyrirtæki þegar þau þurfa að losna við úrgang?
 
„Almennt koma fyrirtæki hingað á opnunartíma fyrir fyrirtæki og sorpið þeirra er vigtað eins og reglur gera ráð fyrir.
 
Það er einhver lenska að losa sig við rusl í náttúrunni. Við sjáum það reglulega að jafnvel húsgögnum og heimilistækjum er kastað út í náttúruna við vegaslóða víðsfjarri endurvinnsluplani Kölku. Þið hafið hins vegar bent á að það kostar ekki mikið að koma með marga af þessum hlutum til eyðingar og sumt er meira að segja ókeypis.
 
„Við sjáum að fólk er að losa sig við hluti sem kostar ekkert að losa sig við á endurvinnsluplani Kölku. Það er sorglegt að sjá rusli hent í náttúruna en við höfum haldið því fram að þetta geri fólk af ásettu ráði. Það er nægur opnunartími hjá okkur til að geta tekið á móti þessu, það erum við vissir um“.

 
Og Kalka tekur á móti öllum úrgangi?
 
„Já, við tökum á móti öllu nema kjarnorkuúrgangi og sprengiefni,“ segir Jón kíminn.
Margt af því sem fólk er að losa sig við í náttúrunni, eins og raftæki, dekk og pappír eru gjaldfrjálsir hlutir í móttökustöðvum Kölku.
 
Yfir í önnur mál. Síðustu misseri hafa staðið yfir viðræður milli Kölku og Sorpu um hugsanlega sameiningu. Hvernig stendur það mál í dag?
 
„Þetta er mál sem hefur komið upp öðru hvoru í nokkurn tíma og menn hafa verið í viðræðum um þennan möguleika. Það er mikið samstarf á milli sorpeyðingarfyrirtækja almennt hér á suðvestur-svæðinu. Í ljósi þessa samstarfs hafa menn greint það að það gæti verið góður kostur að ganga alla leið og sameina. Á þeim grundvelli var farið í viðræður 2016 og við fengum góða ráðgjafa með okkur í þetta verkefni. Staðan í dag er sú að það er búið að greina mögulega eignarhluta fyrirtækjanna sem eru misstór og skulda mismikið. Nú er verið að skoða hver framtíðarsýnin gæti verið og stjórnskipulag og þessi vinna gæti klárast fyrir næstu áramót. Þá fái sveitarstjórnir bæði hér á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu góða skýrslu og upplýsingar um það hvort menn sjái kosti og galla við það að ganga alla leið og sameina fyrirtækin“.

 
Hvernig er samstarfinu háttað í dag. Eruð þið að skiptast á sorpi?
 
Já, sem dæmi þá fluttum við 7000 tonn af sorpi til Sorpu á síðasta ári, efni sem við gátum ekki brennt hér. Í staðinn kemur Sorpa til okkar spilliefnum sem ekki má urða og þarf að brenna. Við tökum við því“.
 
Það hefur komið fram að brennslustöðin í Helguvík er fullnýtt. Hvað þarf að gerast næst?
 
„Í viðræðum okkar við Sorpu erum við að horfa til framtíðar. Við sjáum fyrir okkur að það þurfi að gera töluverðar breytingar í þessum málum því allar reglur, bæði frá Evrópusambandinu og stjórnvöldum okkar, eru að herðast, verða þyngri og erfiðari. Fá árinu 2030 má ekki urða neitt lífrænt efni og það þarf að koma þeim fyrir með öðrum hætti. Sorpa er byrjuð að byggja gas- og jarðgerðarstöð og taka við lífrænum úrgangi. Þá er verið að leita að nýjum urðunarstað. Álfsnes er enn með möguleika til að taka á móti en þar þrengir að. Brennslan hér er fullnýtt, þannig að það liggur fyrir að innan skamms þurfum við að byggja nýja brennslustöð sem yrði með þeim hætti að hún geti brennt fjölbreyttari efni heldur en þessi stöð getur brennt í dag“.
 
 

Myndarleg gjöf til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja

Í tilefni af því að 40 ár eru liðin frá stofnun Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja færði fyrirtækið Heilbrigðisstofun Suðurnesja peningagjöf upp á eina og hálfa milljón króna til tækjakaupa. Á myndinni eru f.v. Birgir Már Bragason, stjórnarformaður Kölku, Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri Kölku og þau Elís Reynarsson framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar hjá HSS, Ingibjörg Steindórsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HSS og Halldór Jónsson, forstjóri HSS.
 

Athafnasvæði Kölku í Helguvík.
 

Björgunarsveitarfólk vinnur að dreifingu á endurvinnslutunnum í Reykjanesbæ.
 

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs