Fréttir

Skorar á stjórnvöld að flýta bólusetningu flugliða og flugfólks
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 4. mars 2021 kl. 14:53

Skorar á stjórnvöld að flýta bólusetningu flugliða og flugfólks

„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar tekur undir framkomnar óskir flugþjónustufyrirtækja um að flýta bólusetningu flugliða og annars starfsfólks flugfélaga sem á í samskiptum við flugfarþega og skorar á stjórnvöld að breyta forgangsröðun bólusetningar til þess að svo megi verða.

Yfir 40% af efnahagsumsvifum á svæðinu má beint eða óbeint rekja til alþjóðaflugvallarins í Keflavík. Til að auka líkur á skjótari viðsnúningi ferðaþjónustunnar og starfseminnar á Keflavíkurflugvelli er mikilvægt að gera allt sem hægt er til að draga úr neikvæðum áhrifum Covid-19. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Stór liður í því er að flýta bólusetningu framlínufólks í flugi og flugþjónustu svo það sé betur búið undir að taka á móti og þjónusta fólk sem vill ferðast til Íslands í vor og sumar.

Atvinnuleysi á Suðurnesjum er það langmesta á Íslandi og mikilvægt að koma hjólum atvinnulífsins í gang að nýju.

Skv. nýjum könnunum kemur fram að val á áfangastað mun fyrst og fremst ákvarðast af því hvernig landið tekur á Covid og bólusetningu gagnvart ferðamönnum. Þá leið eru m.a. Írar að fara til þess að geta markaðsett sinn flugvöll sem veirufrían flugvöll. Því skiptir bólusetning framlínufólks í ferðaþjónustu miklu máli en ekki síður til þess að koma í veg fyrir að smit berist til landsins,“ segir í bókun lögð varfram á bæjarstjórnarfundi þriðjudaginn 2. mars. 2021.