Fréttir

Sjálfstæðismenn spyrja um hækkun launa bæjarstjóra
Kjartan Már, bæjarstjóri
Föstudagur 1. júlí 2022 kl. 07:45

Sjálfstæðismenn spyrja um hækkun launa bæjarstjóra

Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar lögðu fram bókun á síðasta bæjarstjórnarfundi um ráðningarsamning bæjarstjóra. Helga J. Oddsdóttir, bæjarfulltrúi, lagði fram bókunina en í henni er spurt hvernig 31,4% hækkun á launum hafi átt sér stað.

„Liður 1–2 í ráðningarsamningi sýnir 31,4% hækkun á launum bæjarstjóra frá upphafi síðasta kjörtímabils. Laun bæjarstjóra í ráðningarsamningi þann 13. 6. 2018 námu kr. 1.850.000 en verða nú kr. 2.431.546. Hvernig hefur þessi hækkun átt sér stað á sl. fjórum árum? Í síðustu kjarasamningum hefur áherslan verið á að hækka lægstu laun, sem þýðir að prósentuhækkun lægstu launa hefur verið meiri en áður. Þessu fylgdi sérstök beiðni um að laun hærra launaðra yrðu ekki látin hækka umfram eðlilegar hækkanir. Tenging launa bæjarstjóra við meðaltalshækkun launa starfsmanna sveitarfélaga þýðir að bæjarstjóri hefur verið að njóta átaksins í hækkun lægstu launa þvert á markmið þess og óskir vinnumarkaðar, sem er með öllu ótækt,“ segir í bókun sjálfstæðismanna.