Blik- mannstu eftir Eydísi
Blik- mannstu eftir Eydísi

Fréttir

Segir hagsmuni Sorpu tekna fram yfir Kölku
Föstudagur 17. maí 2019 kl. 09:11

Segir hagsmuni Sorpu tekna fram yfir Kölku

- bæjarfulltrúi Miðflokksins vill ekki búa í bæ með tvö kísilver, álver og stærstu sorpbrennslu landsins

Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Reykjanesbæ, segist undrandi á ráðgjöfum Capacent vegna kynningar á hugsanlegri sameiningu Kölku og Sorpu. „Ég tel að bæjarstjórn þurfi að fá betri útskýringar hvað felst í þessari sameiningu. Við þurfum að fá skýrari og betri gögn varðandi málið. Ég er til dæmis alveg undrandi á ráðgjöfum Capacent, hvernig þeir héldu á þessari kynningu, varðandi sameiningu Kölku og Sorpu. Hún var mjög sérstök og ekki nægilega vönduð að mínum dómi. Það hallaði verulega á okkur og þetta birtist mér þannig að hagsmunir Sorpu væru aðalmálið í þessu,“ segir Margrét í bókun á síðasta fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.
 
Í bókuninni segist Margrét velta fyrir sér hver vilji búa í Reykjanesbæ sé þar sem tvö stærstu kísilver í Evrópu eiga að rísa, einnig álver og síðan stærsta sorpbrennsla landsins. 
 
„Allavega ekki ég. Eins og allir vita þá er stóriðja mengandi og henni fylgir oft byggðarleg röskun. Ég spyr því meirihlutann að því hvort að það sé búið að gera heildstætt umhverfismat fyrir Helguvík ásamt mengunarmati miðað við að öll þessi starfsemi hefjist í Helguvík.
 
Miðflokkurinn lagði áherslu í kosningarbaráttu sinni á íbúalýðræði og íbúakosningu varðandi mikilvæg og stór málefni. Ég tel svo vera að bæjarbúar ættu að fá greinargóða kynningu á því hvað felst í sameiningu Kölku og Sorpu og síðan ætti að fara fram íbúakosning enda er hér um mikið hagsmunamál fyrir íbúa Reykjanesbæjar en eins og ég kom inn á áðan að öll stóriðja er mengandi,“ segir Margrét í bókun á fundinum og þar ítrekaði hún jafnframt fyrri bókun sína um sameiningu Kölku og Sorpu. Í þeirri bókun segir:
 
„Bæjarfulltrúi Miðflokksins geldur varhug við því að Kalka eigi að taka við megninu af sorpi af höfuðborgarsvæðinu. Bæði er það mikið umhverfisálag fyrir Reykjanesbæ og ekki síður umferðarálag á Reykjanesbrautina. Svona til glöggvunar þá fara í dag um 55.000 bílar á sólarhring í gegnum Hafnarfjörð. Á þeim hluta sem er einbreiður í Hafnarfjarðarbæ er umferðin um 27.000 bílar á sólarhring. Vestur af Straumsvík aka um 19.000 bílar á sólarhring.
 
Á meðan ástandið á Reykjanesbrautinni er ekki betra en raun ber vitni er varhugavert að auka álagið á brautina enn frekar með sorpflutningum hingað suður eftir. Áður en lengra er haldið verða frekari upplýsingar að liggja fyrir s.s. þær hvort áætlað er að nýr brennsluofn eigi að vera staðsettur í Helguvík. Bæjarbúar eiga heimtingu á að vita hver áform meirihlutans eru í þessum efnum. Áætlað er að 10 manns verði í stjórn sameinaðs félags en einungis 5 aðilar verði í framkvæmdaráði. Verði af þessari sameiningu er það skýr krafa bæjarfulltrúa Miðflokksins að Reykjanesbær eigi fulltrúa í framkvæmdaráðinu þar sem bærinn er fjórða stærsta sveitarfélagið sem að þessari sameiningu standa.“

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs