Fréttir

Samfélagið var ekki nægilega vel  búið undir atburði af þessum toga
Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 30. janúar 2021 kl. 08:27

Samfélagið var ekki nægilega vel búið undir atburði af þessum toga

– segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, í viðtali við Víkurfréttir

Ár er liðið frá því óvissustigi almannavarna var lýst yfir í Grindavík vegna landriss við fjallið Þorbjörn. „Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi Almannavarna í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum vegna vísbendinga um kvikusöfnun vestan við fjallið Þorbjörn á Reykjanesskaga. Undanfarna daga hefur landris og aukin jarðskjálftavirkni mælst á Reykjanesi og telja jarðvísindamenn Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar HÍ mögulegt að um sé að ræða kvikusöfnun vestan við Þorbjörn, þótt ekki sé útilokað að aðrar ástæður geti verið fyrir þessari virkni,“ sagði í tilkynningu frá Samhæfingarstöð almannavarna þann 26. janúar í fyrra.

Grindvíkingar hafa allt síðasta ár búið við tíða jarðskjálfta. Sumir hafa verið öflugir og látið finna vel fyrir sér. Mikil vinna fór af stað í Grindavík þar sem unnið var með vinbröðg við náttúruvá. Víkurfréttir heyrðu í Fannari Jónassyni, bæjarstjóra í Grindavík, og ræddu við hann um þá vinnu og viðbrögð Grindvíkinga við jarðskjálftunum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

- Hvað getur þú sagt mér um þá vinnu sem lagt hefur verið í frá því að óvissustigi var lýst yfir?

„Óvissustigi var lýst yfir þann 26. janúar í kjölfar óvenju mikils landriss við fjallið Þorbjörn. Ekki var talið útilokað að kvikusöfnun hafi átt sér stað sem mögulega gætu leitt til eldsumbrota í nágrenninu. Þetta ástand var alvarlegt og nauðsynlegt að bregðast skjótt við. Rík áhersla var lögð á að koma upplýsingum til íbúanna og margir stærri og smærri fundir haldnir í því sambandi. Þess var sérstakleg gætt að veita fólki af erlendum uppruna sem bestar og réttastar upplýsingar sem og túlkaþjónustu, enda var talsverður ótti í þeim hópi. Það kom í ljós að samfélagið var ekki nægilega vel búið undir atburði af þessum toga. Þó að til væru viðbragðs- og rýmingaráætlanir vegna eldsvoða og fleiri atburða þá vantaði kaflana um jarðskjálfta og eldgos. Því var hafist handa við að yfirfara og endurskoða allar áætlanir. Ef til rýmingar kæmi þurfti að leggja höfuðáherslu á að tryggja þeim aðstoð sem hennar þyrftu helst við, svo sem skólabörnum, hreyfihömluðum og eldra fólki. Það var heljarmikið verkefni og var að mestu unnið á fáeinum vikum. Þar nutum við mjög góðrar samvinnu við Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, Veðurstofuna og ýmsa úr vísindasamfélaginu. Viðbragðsaðilar í Grindavík og víðar af landinu lögðu einnig mikið af mörkum og síðast en ekki síst komu bæjaryfirvöld, stjórnendur og forstöðumenn Grindavíkurbæjar að þessu verkefni af fullum þunga.“

- Eruð þið alltaf meðvituð um jarðhræringarnar, er þetta í huga ykkar alla daga?

„Jarðskjálftarnir hafa komið í hrinum en svo rénar þess á milli. Almennt hefur dregið úr virkninni síðustu mánuði þó að vissulega hafi komið nokkuð snarpir skjálftar öðru hvoru. Undirmeðvitundin er vakandi en ég á ekki von á því að þetta sé ofarlega í huga fólks alla daga.“

- Á fyrstu vikunum var talsverður óróleiki á meðal íbúa út af ástandinu. Eru bæjarbúar orðnir rólegri yfir stöðunni?

„Eðlilega greip um sig talsverður ótti þegar jarðhræringar voru sem tíðastar fyrstu vikurnar. Það er reyndar mjög misjafnt hvernig fólk upplifir þessar aðstæður. Sumir eru sallarólegir en aðrir eru skiljanlega kvíðnir. Fólk óttast það óþekkta og þessir ofurkraftar náttúrunnar eru vissulega óútreiknanlegir. Ég veit ekki hvort segja megi að jarðskjálftarnir venjist. Ég tel þó að bæjarbúar séu almennt orðnir nokkuð rólegir og kippi sér ekki eins upp við skjálftana og í upphafi.“

- Finnst ykkur að jarðskjálftar hafi eitthvað dregið úr áhuga fólks á að setjast að í Grindavík?

„Það er ekki hægt að merkja það. Fasteignasala hefur verið lífleg og það eru á annað hundrað íbúðaeiningar í undirbúningi eða byggingu í Grindavík. Það eru nánast engar lausar lóðir eftir til úthlutunar og senn hefjast framkvæmdir við nýtt og glæsilegt íbúðahverfi sem hefur fengið nafnið Hlíðarhverfi. Það er nú þegar talsverður áhugi á að tryggja sér lóðir á þeim stað.“

- Hvernig ertu að upplifa ástandið í dag, ári síðar?

„Það er enginn bilbugur á okkur. Heimsfaraldurinn hefur vissulega haft mikil áhrif hér eins og annars staðar en Grindvíkingar eru tilbúnir í endurbatann um leið og veiran gefur eftir. Atvinnulíf hefur ávallt staðið styrkum fótum hér, íbúarnir samhentir þegar mest á reynir og bærinn mun ná sínum fyrri styrk innan tíðar.“

- Þið hafið nýlega gefið út viðbragðsáætlun vegna eldgoss og þá voru fréttir af því nýverið að koma eigi upp varaafli fyrir íþróttahúsið. Er einhver frekari vinna í gangi?

„Að stofni til var gengið frá viðbragðsáætluninni síðastliðinn vetur. Þó átti eftir að fullvinna nokkra kafla og lokagerð áætlunarinnar var gefin út og tók gildi um síðustu áramót. Hana má finna á heimasíðu Grindavíkurbæjar.

Í eldri áætlunum var gert ráð fyrir að Hópsskóli væri fjöldahjálparstöð fyrir Grindavík. Þegar málin voru krufin til mergjar varð niðurstaðan sú að hún væri betur komin í íþróttamiðstöð bæjarins enda eru húsakynnin rúmgóð og aðstaðan fjölbreytt. Jafnframt var ákveðið síðasta vetur að kaupa varaaflsstöð til að tryggja rafmagn í neyðartilvikum. Þegar betur var að gáð varð niðurstaðan sú að kaupa enn stærri varaaflsstöð og skila þeirri fyrri. Hin nýja stöð á að geta uppfyllt rafmagnsþarfir íþróttamannvirkjanna og jafnvel næstu húsa, svo sem þeirri byggingu sem hýsir heilsugæslustöðina og bæjarskrifstofurnar. Þess má einnig geta að gert er ráð fyrir því að varðskipið Þór geti veitt rafmagni inn á kerfið, en skipið lagðist að bryggju í febrúar síðastliðinn til að prófa landtengingu við dreifikerfi bæjarins ef á þyrfti að halda. Jafnframt hafa átt sér stað viðræður við HS Veitur um varaaflsstöðvar ef ófremdarástand skapaðist í raforkumálum.“