Fréttir

Saga Suðurnesja frá 1980 í stafrænu formi á timarit.is
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
föstudaginn 25. október 2019 kl. 07:40

Saga Suðurnesja frá 1980 í stafrænu formi á timarit.is

Öll blöð Víkurfrétta eru aðgengileg á vefsíðunni timarit.is og er auðvelt að leita í þeim stóra gagnagrunni. Blaðið kom fyrst út þann 14. ágúst 1980 og er hægt að nálgast öll tölublöðin á aðgengilegan hátt og slá inn leitarorðum um það sem fólk er að leita að. Víkurfréttir fagna 40 ára útgáfuafmæli á næsta ári og tölublöðin frá upphafi eru nærri tvö þúsund og blaðsíðurnar rúmlega fjörtíu þúsund.

Í blaðinu er að finna sögu Suðurnesja í þessi tæplega 40 ár en Víkurfréttir hafa fjallað um samfélagið í öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum alla tíð. Á árum áður voru allnokkrir aðilar á Suðurnesjum sem söfnuðu blaðinu og nokkrir bundu blöðin inn. Einn af þeim var Björn Stefánsson úr Keflavík, mikill blaðaáhugamaður og safnari en sonarsonur hans, Atli Þór Höskuldsson, kom færandi hendi á skrifstofu Víkurfrétta með eitt eintak af hverju blaði frá upphafi. Afi hans fékk alltaf nokkur eintök til að binda inn í veglegar bækur en þær eru m.a. aðgengilegar í Bókasafni Reykjanesbæjar. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Blöðin frá 1980 til 1997 voru skönnuð inn af Landsbókasafninu en blöðin frá 1997 til dagsins í dag eru öll til í stafrænu formi en þá var sú bylting að taka yfir. Allar blaðsíður Víkur-frétta frá upphafi er því hægt að sjá á vefsíðunni timarit.is.

Eigendur Víkurfrétta hafa alla tíð haldið til haga nokkrum fjölda af hverju blaði og hefur það tekið nokkurt geymslupláss. 

Nýlega var tekin sú erfiða ákvörðun að setja öll blöðin í endurvinnslu og var það talsvert verk enda mikið magn blaða. Víkurfréttir varðveita þó enn blaðabunkann sem Björn Stefánsson safnaði, einu eintaki af hverju blaði frá upphafi, og Atli, sonarsonur hans, kom með og vilja Víkurfréttir nota tækifærið og þakka fyrir það.