Heklan vetrarfundur
Heklan vetrarfundur

Fréttir

Pósturinn lofar að bæta þjónustuna í Grindavík
Grindvíkingar og aðrir hafa þurft að standa í röð við pósthúsið í Reykjanesbæ undanfarið. Vf-mynd: Páll Ketilsson
Þriðjudagur 1. desember 2020 kl. 18:15

Pósturinn lofar að bæta þjónustuna í Grindavík

Pósturinn hefur brugðist við mótmælum bæjaryfirvalda að loka hafi þurfti á pósthús bæjarins. Loka þurfti útibúi Landsbankans vegna sóttvarnaaðgerða en með lokuninni varð að loka þjónustu Póstsins í bænum þar sem þeir eru með aðsetur í útibúi bankans. Töluverð ónægja kom upp í kjölfarið hjá bæjarbúum, þar sem nú þurfti að sækja pakka til Reykjanesbæjar þar sem jafnvel enn fleiri þurftu að koma saman utandyra í biðröð vegna anna.

Vefsíða Grindavíkurbæjar greinir nú frá því að framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Póstsins hafi nú svarað beiðni Grindavíkurbæjar en unnið er að því að leysa málið með afgreiðsluna í Grindavík. Í samstarfi við Landsbankann er skoðað hvernig hægt sé að leysa málið og verið er að skoða möguleikana með að setja upp einfalda afgreiðslu annaðhvort í þeirra húsnæði eða öðru.

Það er tekið fram í svari frá Póstinum að þetta þurfi að gerast hratt. Búist hafi verið við að þetta mynda geta farið í fyrra horf í næstu viku en svo verði líklega ekki. Starfsfólk Póstsins á svæðinu hefur reynt eftir fremsta megni að keyra út sendingar bæði heim til fólks og í póstboxið á staðnum. Það sé einlæg von Póstsins að hægt verði að leysa vandann svo hægt verði að veita 100% þjónustu á staðnum.

Málið var tekið á dagskrá bæjarstjórnar í síðustu viku og eftirfarandi var bókað:

Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar mótmælir harðlega tímabundinni lokun pósthússins hér í Grindavík vegna COVID. Á sama tíma og almannavarnir hvetja til netverslunar og ferðast ekki milli landshluta þurfa Grindvíkingar að mæta til Reykjanesbæjar til að senda og sækja pakka. Það er óviðunandi þjónusta fyrir 3.500 manna bæjarfélag. Ef samstarf Póstsins og Landsbankans býður ekki upp á að halda pósthúsinu opnu þarf Pósturinn að skoða aðra samstarfsmöguleika eða finna skapandi lausnir til að þjónusta Grindvíkinga t.d. með aukinni heimsendingarþjónustu bæði til að afhenda pakka sem og að sækja sendingar. Óskar bæjarstjórn eftir svörum frá Póstinum.