Fréttir

Nýjar aðgerðir vegna Covid-19 í Reykjanesbæ
Föstudagur 31. júlí 2020 kl. 09:35

Nýjar aðgerðir vegna Covid-19 í Reykjanesbæ

Í framhaldi af ákvörðun yfirvalda um hertar aðgerðir í baráttunni við Covid 19 heimsfaraldurinn hélt Neyðarstjórn Reykjanesbæjar fund þar sem ákveðið var að stíga nokkur skref til baka.

Samkomubann verður hámark 100 manns. Tveggja metra reglan verður innleidd aftur og er nú skylda en ekki val. Ef ekki er hægt að virða 2 metra er skylda að vera með grímur og hanska.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Deildir og vinnustaðir Reykjanesbæjar eru hvattir til að efla sóttvarnir, hafa nóg af spritti, hönskum og nota grímur sem hægt er að nálgast í þjónustuveri Ráðhússins. Aðrir vinnustaðir og fyrirtæki í Reykjanesbæ eru hvött til þess sama.

Tveggja metra reglan verður innleidd á sundstöðum og þess gætt að ekki fleiri en 100 fullorðnir einstaklingar verði í sundi í einu (börn fædd 2005 eða síðar undanskilin).
Íþróttafélögn Njarðvík, Keflavík og ÍRB, hafa verið upplýst um tilmæli til íþróttahreyfingarinnar um að öllum íþróttaviðburðum fullorðinna, þ.e. þeirra sem fæddir eru 2000 og fyrr, verði frestað um viku eða til 10. ágúst.

Góð staða er á vinnustöðum Velferðarsviðs varðandi sótthreinsun og fjarlægðartakmörk. Rifjaðar verða upp fyrri aðgerðaráætlanir ef til frekari skerðinga kemur.

Í dagdvöl aldraðra í Selinu verður lokað fyrir utanaðkomandi gesti inn í húsið. Bílstjórar eru beðnir um að hringja á undan sér en koma ekki inn í húsið.

Í dagdvöð aldraðra á Nesvöllum verður lokað fyrir utanaðkomandi gesti inn í dagdvölina. Matartími hjá skjólstæðingum dagdvalar verður kl 11:30 eins og áður í salnum en fyrir almenning frá kl 12:00. Búið er að skerpa á sóttvörnum og því verður haldið áfram.
Verið er að skoða hvernig unnið verður með tveggja metra regluna í dagdvölum aldraðra en samráðshópur um starfsemi hjúkrunarheimila og dagdvala í COVID faraldri mun funda á föstudag og koma á framfæri leiðbeiningum í kjölfar fundarins.

Búið að færa til borð í Ráðhúskaffi þannig að hægt sé að virða 2 metra reglu. Fyllt verður á sprittstöðvar í Ráðhúsinu og aðgengi að hönskum og grímum tryggt.

Fjarlægðartakmörk í þjónustuveri verða tryggð.

Farið verður fram á grímuskyldu í almenningsvögnum og sömu reglum og varúðarráðstöfunum fylgt og hjá Strætó í Reykjavík.

Einn inngangur verður opin í DUUS húsum, spritt, hanskar og grímur í boði, talið verður inn. Sama mun gilda í Rokksafnið og Hljómahöll.

Tryggt verður að hægt verði að viðhafa 2 metra reglu við afgreiðsluborð í Bókasafni. Þar verða einnig spritt, grímur og hanskar aðgengilegar. Sófasvæði á bókasafni verður lokað.

Neyðarstjórn hvetur fólk til að halda vöku sinni og virða tilmæli stjórnvalda.