Fréttir

Nú förum við að hugsa um fyrirtækin
Bæjarstjórn Grindavíkur sat fyrir svörum á búafundi í Laugardalshöllinni.
Föstudagur 23. febrúar 2024 kl. 06:00

Nú förum við að hugsa um fyrirtækin

Grindavíkurbyggð verði reist sem fyrst. Erfitt hjá minni fyrirtækjunum. Fjölmenni og heitar umræður á íbúafundi.

„Síðustu dagar hafa farið í að senda inn umsögn og koma því á framfæri varðandi íbúðarkaupin, slík vinna er í gangi varðandi frumvarp fyrir fyrirtækin“,“ segir Helga Dís Jakobsdóttir sem situr í Bæjarstjórn Grindavíkur fyrir Rödd unga fólksins. Talsverð umræða hefur verið á samfélagsmiðlum Grindvíkinga um opið samtal við bæjarfulltrúa og loksins var hægt að verða við því mánudaginn 19. febrúar og fór íbúafundurinn fram í Laugardalshöllinni og var vel sóttur.

Helga Dís myndar meirihluta í bæjarstjórn Grindavíkur ásamt tveimur frá Sjálfstæðisflokki, og einum frá Framsóknarflokki. „Ég var mjög ánægð með fundinn, það var kominn tími til að hitta íbúana, það er búið að standa til lengi en fljótt skipast oft veður í lofti. Mér fannst fundurinn ganga vel, það var kominn tími til að eiga þetta samtal. Auðvitað er sumt sem við erum ekki öll sammála um, það eru allir sárir og reiðir, við í bæjarstjórninni ekkert minna en aðrir íbúar því það má ekki gleymast, við erum líka Grindvíkingar og erum að ganga í gegnum nákvæmlega sömu hlutina og aðrir íbúar. Sumum finnst kannski aðeins eins og þetta séum við í bæjarstjórninni og hinir íbúarnir, þetta er ekki þannig, við erum öll í sama liðinu. Það eru allir að gera sitt besta, síðustu dagar hafa farið í að senda inn umsögn og koma því á framfæri varðandi íbúðarkaupin, slík vinna er í gangi varðandi frumvarp fyrir fyrirtækin, það þarf að hlúa að þeim líka,“ sagði Helga Dís.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Erfitt hjá minni fyrirtækjunum

Staða smærri fyrirtækjaeigenda í Grindavík er erfið, Brynjar Pétursson nuddari hefur þó náð að halda sinni starfsemi gangandi en á nýjum stað.

„Það sást á þessum fundi að það þurfa vera skilvirkar upplýsingar, við þurfum að fá að vita hvað sé að, hvernig eigi að laga, hver ræður þessu og hver ræður hinu. Bæjarstjórnin hefur ekki getað gert neitt í sumum málum því hún hefur engin völd. Ég var ánægður með þau svör sem komu fram á fundinum, bæjarstjórnin svaraði eftir bestu getu að því sem var spurt. Ég er ekki í minnsta vafa um að við byggjum Grindavík upp aftur, eina spurningin er bara hvenær. Ég gat flutt nuddstofuna mína í Voga, er með fína aðstöðu þar og við búum í Keflavík. Grindvísku kúnnarnir mínir eru auðvitað úti um allt svo þetta hefur alveg haft áhrif en yfir höfuð hefur þetta gengið vel og ég kvarta ekki. Varðandi framtíð Grindavíkur spyr ég einfaldlega af hverju við sameinum ekki bara öll sveitarfélögin á Suðurnesjum í eitt, þannig getum við betur tekist á við þetta og engin átök eiga sér stað,“ segir Brynjar.

Blæða út

Það hefur verið erfiðara hjá Jakobi Sigurðssyni og félögum í Fjórhjólaævintýri, þeir gera út á fjórhjólaferðir í nágrenni Grindavíkur og fóru síðustu ferðina 10. nóvember, rétt áður en allt fór á hliðina í Grindavík. „Ég var ánægður með fundinn, það var kominn tími til að eiga þetta samtal við bæjarfulltrúana okkar, við höfum verið að kalla eftir því. Mér fannst gott að heyra að við erum öll að fara klára þetta verkefni saman, bæjarstjórnin og við íbúarnir, mér fannst það vera stemningin hér í dag. Varðandi okkar rekstur þá er þetta auðvitað erfitt, við höfum ekki getað farið einn túr með ferðafólk síðan 10. nóvember. Svæðið er ekki öruggt og það þarf að tryggja það áður en við getum haldið áfram. Okkur er hægt að blæða út, það hefur ekki verið neinn stuðningur til þessa nema launastuðningur en við höfum talað við ráðamenn og vonandi fer eitthvað koma í ljós með það. Bæjarstjórnin talaði um að nú fari þau að hugsa um fyrirtækin og vonandi kemur eitthvað gott út úr því. Við vorum byrjaðir á öðrum rekstri samhliða, vorum að byggja hús í Grindavík. Þarna eru hendur sem eru tilbúnar að vinna og byggja annars staðar og ég vona að sem fyrst verði ráðist í að reisa Grindavíkurbyggð einhvers staðar, við gætum komið að þannig uppbyggingu. Hvar sú byggð á að rísa er svo annað mál, helst nálægt sjó en það kemur enginn staður í staðinn fyrir Grindavík, þar viljum við öll vera og munum vonandi sem flest snúa þangað aftur þegar þessum atburðum lýkur,“ sagði Jakob.

Vona að jörðin róist

Guðbjörg Hermannsdóttir er einn íbúa Grindavíkur og var á fundinum. „Mín upplifun af fundinum var mjög góð, gott að sjá Grindvíkinga koma saman og fá svör við þeim spurningum sem hægt er að fá svör við, við erum að glíma við móður náttúru og það er ekki hægt að fá svör við öllu. Ég var með nokkrar spurningar fyrir bróður minn sem er að byggja en aðallega vildi ég koma og sjá hvað er í gangi. Ég og mín fjölskylda höfum aðeins þurft að fara í sundur, við erum sex og þurftum að dreifa okkur því við fengum ekki húsnæði fyrir okkur öll og ofan á það er ég með gæludýr. Dóttir mín náði að kaupa sér íbúð á Ásbrú, sonur minn gistir hjá henni því hann er í skóla þar og við hjúin erum með yngstu á Völlunum í Hafnarfirði, fáum að hafa kisurnar þar með okkur. Ég veit ekkert hvort við munum flytja aftur til Grindavíkur, þetta er eins og draga eitthvað úr hatti, ég vona að jörðin muni róast sem fyrst en tíminn verður bara að leiða það í ljós. Ég get ekki sagt af eða á í dag, ég vil sjá náttúruna klára sig áður en ég tek ákvörðun. Ef ég myndi snúa til baka yrði Þórkötlustaðarhverfið minn ákjósanlegasti staður, ég vil vera nálægt sjónum, þar líður mér best,“ sagði Guðbjörg að lokum.