Fréttir

Mikil aukning ferðamanna á Reykjanesið í sumar
Í húsinu til hægri er nú komin snyrtiaðstaða fyrir ferðamenn.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 21. júlí 2020 kl. 11:09

Mikil aukning ferðamanna á Reykjanesið í sumar

Búið að opna snyrtiaðstöðu og þjónustubygging í undirbúningi. Reykjanesið í Eurovision-mynd Ferrells

Mikil aukning hefur orðið í heimsóknum ferðamanna á Reykjanesvita í vor og í sumar að sögn Grétu Súsönnu Fjeldsed sem sinnir svæðisumsjón á Reykjanesi. „Við urðum vör við aukna aðsókn strax í Covid-19 og hún hefur bara aukist. Síðasta sunnudag komu um 300 bílar og líklega hátt í þúsund manns,“ segir Gréta Súsanna.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í vor var opnuð snyrtiaðstaða í gamla húsinu fyrir neðan Reykjanesvita og húsið lagfært og málað. Snyrtiaðstaða hefur verið ábótavant á svæðinu. Unnið er að undirbúningi við byggingu þjónustumiðstöðvar sem hefur tafist vegna Covid-19 sem nú er komið í hendur Bláa Lónsins. Gréta sagðist vona að framkvæmdir hæfust í haust.

„Fólk er afar hrifið af svæðinu en hér eru fjölmargir magnaðir ferðamannastaðir í nágrenni vitans. Síðustu vikurnar hafa margir mætt og ég sinni svæðisumsjón og hef talið bílafjölda sem er oft 20-30 á klukkustund. Það er meiri aðsókn um helgar en líka góð virka daga núna á sumrin þegar margir eru í fríi. Svo erum við að skipuleggja gönguferðir um svæðið,“ segir Gréta.

Vinsælt er að ganga um svæðið við Valahnjúk og ströndina og ekki síður Gunnuhver og brú milli heimsálfa. Í kvikmyndinni 'The Story of Fire Saga' sem fjallar um Eurovision söngvakeppnina eru atriði sem voru tekin upp í nágrenni Valahnúks og á Reykjanesinu.

Í þessu myndskeiði má sjá atriði tekin á Reykjanesinu.

Sjónvarp Víkurfrétta ræddi nýlega við Rannveigu Garðarsdóttur, leiðsögumanns og hún fer yfir helstu ferðamannastaði í því spjalli og sýndar eru fallegar myndir sem VF tók í byrjun sumars.