Vilhjálmur Árnason
Vilhjálmur Árnason

Fréttir

Mesta skjálftavirknin við Litlahrút og að Keili
Ljósmynd: Jón Hilmarsson
Föstudagur 16. apríl 2021 kl. 10:10

Mesta skjálftavirknin við Litlahrút og að Keili

Áfram er mesta skjálftavirkni á Reykjanesskaga norðarlega í kvikuganginum, við Litlahrút og að Keili. Lítil aflögun mælist á þessu svæði bæði á GPS tækjum og í gervitunglagögnum. Þetta kom fram á fundi vísindaráðs almannavarna í gær. Á fundinum var farið yfir skjálftagögn og mælingar á aflögun, framgang gossins, dreifingu hrauns, framleiðslu gosefna og þá mengun sem fylgir eldgosinu.

Síðustu vikuna hafa opnast nýir gígar á sprungunni á milli Geldingadala og þess gígs sem opnaðist annan í páskum. Þetta hefur haft áhrif á hvert hraun rennur og bunkast nú upp hraun í SA-hluta Geldingadala og má búast við að það renni úr skarðinu sem þar er á næstunni.

Sólning
Sólning

Rætt var um hvort hægt væri að sjá fyrir þegar nýjar opnanir verða á sprungunni innan eldgosasvæðisins, en merkin eru afar lítil og erfitt að mæla þau með þeim hætti að hægt verði að vara fyrir með mikilli vissu og fyrirvara.

Hraunflæði hefur verið nokkuð stöðugt frá upphafi goss, þó hægt sé að greina litlar sveiflur inn á milli. Ekkert bendir til þess að það sjái fyrir endan á gosinu. Gosmengun er mest við gosstöðvarnar og dvínar hratt með aukinni fjarlægð frá þeim.