Karlakórinn
Karlakórinn

Fréttir

Meiri óvissa er nú en áður um mögulega tímasetningu á næsta eldgosi
Frá eldgosinu 8. febrúar sl. VF/Hilmar Bragi
Fimmtudagur 14. mars 2024 kl. 17:07

Meiri óvissa er nú en áður um mögulega tímasetningu á næsta eldgosi

Samkvæmt nýjustu aflögunarmælingum og gervitunglagögnum heldur kvikusöfnun undir Svartsengi áfram með sambærilegum hraða og fyrir kvikuhlaupið 2. mars. Líkanreikningar byggðir á þeim gögnum staðfesta að kvikusöfnunin undir Svartsengi er á sama stað og dýpi og áður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Í tengslum við eldgosin 14. janúar og 8. febrúar og kvikuhlaupið 2. mars, hefur það sýnt sig í öllum tilfellum að heildarmagn í kvikuhólfinu undir Svartsengi hafi þurft að ná um 10 milljón rúmmetrum áður en kvika hleypur yfir í Sundhnúksgígaröðina. Möguleg tímasetning á næsta eldgosi hefur verið byggð á því að reikna út magn kviku sem hleypur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina í hvert sinn og síðan hversu marga daga það mun taka að safna aftur upp í sambærilegu magni kviku undir Svartsengi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Graph_mogi_is_14032024

Í kvikuhlaupinu 2. mars er áætlað að um 1,3 milljón m3 af kviku hafi farið frá kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina, sem er mun minna en í fyrri kvikuhlaupum síðustu mánuði. Síðan þá er áætlað að um 4 milljón m3 af kviku hafi bæst við undir Svartsengi, en ekki hefur komið til kvikuhlaups eða eldgoss.

Það bendir til þess að mögulega hafi átt sér stað einhver breyting á þeim farvegi sem kvikan hefur leitað í yfir í Sundhnúksgígaröðina. Í ljósi þess er því meiri óvissa nú en áður um hversu mikið magn kviku þarf að safnast fyrir undir Svartsengi til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi.

Meiri óvissa er því nú en áður um tímasetningu á næsta kvikuhlaupi og mögulegu eldgosi. Það skal hins vegar tekið fram að áfram eru mestar líkur á því að kvikan hlaupi yfir í Sundhnúksgígaröðina og þá mögulega eldgosi á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells.

Skjálftavirkni norðvestur af Grindavík ekki merki um að kvika sé þar á ferðinni

Ef kvika færi að leita annað en þá leið sem hún hefur farið yfir í Sundhnúksgígaröðinni, t.d. í vestur í átt að Eldvörpum eða suður af Þorbirni, væri undanfari mögulegs eldgoss á því svæði mjög ákafar skjálftahrinur og aflögun sem kæmi skýrt fram á mælitækjum og gervitunglamyndum. Engin merki eru um slíkt á þessum tímapunkti.

Allnokkrir smáskjálftar (minni en 1.5 að stærð) hafa mælst norðvestur af Grindavík síðustu daga. (Sjá yfirlitsmynd hér að neðan.) Virknin er að megninu til staðsett innan sigdalsins sem myndaðist 10. nóvember og er vegna áhrifa frá landrisinu í Svartsengi sem veldur spennubreytingum innan sigdalsins. Skjálftavirknin er ekki merki um að kvika sé á ferðinni á þessu svæði.

Skjalftar_0203_1403_2024_Graben

Myndin sýnir skjálftavirkni á tímabilinu 3. mars til dagsins í dag, 14. mars. Svörtu línurnar tákna ytri mörk sigdalanna sem mynduðust í tengslum við kvikuhlaupið mikla 10. nóvember 2023 og eldgosið 14. janúar í ár.

Líkleg atburðarrás næstu daga:

  • Kvikumagn undir Svartsengi heldur áfram að aukast sem gæti endað með nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi
  • Eldgos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur
  • Líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells

Nýjustu breytingar í virkni:

  • Merki um að meira magn kviku þurfi að safnast fyrir undir Svartsengi en áður, til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi
  • Meiri óvissa er nú en áður um tímasetningu á næsta kvikuhlaupi og mögulegu eldgosi

Athugið:

  • Þegar veður versnar dregur úr skilvirkni eftirlitskerfis Veðurstofunnar. Í kvöld og nótt bætir í vind með ofankomu á Reykjanesi og á morgun má búast við allhvassri suðaustanátt með hvössum vindhviðum. Því má gera ráð fyrir að bæði næmni jarðskjálfta- og rauntíma GPS vöktunar Veðurstofunnar skerðist. Einnig mun veðrið hafa áhrif á óróamælingar og sjónrænt eftirlit með vefmyndavélum. Veðrið gengur hratt niður um miðnætti annað kvöld, 15. mars.