Fréttir

Innbrotsgengi fóru í hús á Suðurnesjum
Brotist inn í nokkur hús að undanförnu. | Peningum og skartgripum stolið.
Föstudagur 23. febrúar 2024 kl. 06:00

Innbrotsgengi fóru í hús á Suðurnesjum

Lögreglan á Suðurnesjum hefur að undanförnu rannsakað þrjú innbrot í hús á Suðurnesjum. Sameiginlegt er með öllum innbrotunum að þjófarnir fóru mikinn á heimilunum, rótuðu í öllu þar sem möguleiki var að finna peninga eða dýrari skargripi. Þeim varð vel ágengt í öllum innbrotunum, tóku skartgripi og peninga og í einu tilfellinu numu þeir á brott peningaskáp með fjármunum og verðmætum.

Að sögn Jóns Halldórs Sigurðssonar, lögreglufulltrúa í rannsóknardeild er unnið hörðum höndum að rannsókn málanna. Ekki liggur fyrir heildarverðmæti sem stolið var.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í öllum þremur innbrotunum létu innbrotsþjófarnir aðra hluti vera eins og fartölvur og önnur tæki. Í fyrsta innbrotinu sem var aðra helgina í janúar var farið inn í fyrsta húsið af þremur en það er í Garði. Þremur vikum síðar var farið í tvö hús í Reykjanesbæ, það seinna þegar húseigendur höfðu farið annað til að gista á meðan ekki var heitt vatn í Reykjanesbæ.

Jón Halldór segir mikilvægt að nágrannar láti lögreglu vita eða hringi í 112 ef þeir sjái grunsamlegar mannaferðir. Skrifi hjá sér bílnúmer eða lýsingar á fólki ef eitthvað óvanalegt á sér stað.