Fréttir

Hrein eign Festu hækkaði um 19 milljarða
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 25. október 2019 kl. 07:41

Hrein eign Festu hækkaði um 19 milljarða

fyrstu sex mánuðina á þessu ári – Rúmlega helmingur rétthafa í sjóðnum frá Suðurnesjum

Ávöxtun eigna Lífeyrissjóðsins Festu var afar góð fyrstu sex mánuði ársins en nýlega var árshlutauppgjör kynnt. Hrein eign sjóðsins í júnílok nam rúmlega 168 milljörðum króna og hækkaði um rúmlega nítján milljarða frá áramótum eða um 13%. Rúmlega helmingur sjóðsfélaga í Festu er frá Suðurnesjum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum greiddu rúmlega sextán þúsund sjóðfélagar iðgjöld til sjóðsins á fyrri helmingi ársins hjá rúmlega tvö þúsund launagreiðendum. Iðgjöld námu  rúmlega 5,5 milljörðum króna, sem nemur 13,6% aukningu frá sama tímabili árið áður.

Lífeyrisþegar voru um átta þúsund og námu lífeyrisgreiðslur um tveimur milljörðum króna sem nemur 10,7% aukningu frá sama tímabili árið áður.

Af fjárfestingum sjóðsins nema hlutabréf og framtaksfjárfestingar um 43% en skuldabréf og innlán um 57%.

Hrein eign sjóðsins í júnílok 2019 nam rúmlega 168 milljörðum og hækkaði um rúmlega nítján milljarða frá áramótum eða um 13%.

Fjöldi rétthafa hjá sjóðnum er um 98 þúsund og dreifist um allt land. Flestir eru á Suðurnesjum en einnig á  Vesturlandi og Suðurlandi. Það eru ellefu stéttarfélög sem aðild eiga að sjóðnum auk Samtaka atvinnulífsins. Fjöldi fulltrúa stéttarfélaga á ársfundi er reiknaður út af óháðum þriðja aðila á tveggja ára fresti. Stéttarfélög á Suðurnesjum áttu samtals 32 af 60 fulltrúum á ársfundi 2019 sem jafngildir 53,3%.