Fréttir

Hraunið flæðir út úr dalnum á miðvikudag í næstu viku
Hraun verður komið í Meradali á sautjánda degi goss ef framvindan verður sú sama og í dag.
Fimmtudagur 25. mars 2021 kl. 17:27

Hraunið flæðir út úr dalnum á miðvikudag í næstu viku

Hversu lengi getur eldgosið staðið? Nú virðist hafa myndast bein tenging frá kviku efst í möttli til yfirborðs í Geldingadölum. Fyrst og fremst er það því magn kviku efst í möttli sem ræður því hversu mikið efni berst til yfirborðs.

Nú eru um 6 dagar frá því að gosið hófst. Veðurstofa Íslands hefur gefið út mynd sem sýnir mögulega útbreiðslu hraunsins 17 dögum eftir að gos hófst, ef hraunflæðið helst svipað og undanfarið. Út frá þessu líkani næði hraunbreiðan út úr dalnum á degi 12, sem er á miðvikudaginn í næstu viku.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Nánar um vangaveltur um mögulega lengd gossins á vef Veðurstofunnar.

Á Reykjanesskaga sýna bylgjubrotsmælingar að jarðskorpan er að jafnaði um 15 km þykk, og neðan við jarðskorpuna tekur möttullinn við. Með jarðeðlisfræðilegum mælingum má greina merki kviku eða kvikuhólfa í jarðskorpunni, en á Reykjanesskaga finnast engin merki um slíkt, hvorki kviku né kvikuhólf. Því má búast við að kvika sem upp kemur í eldgosum á Reykjanesskaga komi beint neðan úr möttli.

Nú hafa efnagreiningar Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands á nýja hrauninu í Geldingadölum staðfest að svo sé, þ.e. að kvikan sem upp kemur sé frumstæð og komi beint úr möttli af 15-17 km dýpi. Áætlað er að kvikuflæðið í Geldingadölum sé um 5-6 m3/s og hefur flæðið lítið breyst frá því að eldgosið hófst.

Á óróagrafi frá skjálftamælinum FAF, sem er austan við Fagradalsfjall í um 2,5 km fjarlægð frá gossprungunni, má greina styrk eldgossins vel á tíðnibilinu 2-4 Hz (blá lína). Samkvæmt óróanum hefur styrkur eldgossins síst dvínað, heldur eykst hann jafnt og þétt undanfarna daga, og þá sérstaklega í nótt. Þessum athugunum á óróa ber vel saman við aðrar athuganir, t.d. myndum frá gervitunglum.

En hversu lengi getur eldgosið staðið? Nú hefur myndast bein tenging frá kviku efst í möttli til yfirborðs í Geldingadölum. Fyrst og fremst er það því magn kviku efst í möttli sem ræður því hversu mikið efni berst til yfirborðs. Dæmi eru til um dyngjugos á Reykjanesskaga sem vafalítið stóðu árum saman og framleiddu mikið hraun, s.s. Þráinsskjöldur, Sandfellshæð og Heiðin há sem eru stærstu dyngjurnar, og ætla má að þá hafi sömuleiðis myndast bein tenging frá kviku í möttli til yfirborðs miðað við efnagreiningar. Fleiri dæmi eru til um eldgos þar sem ekki var vitað um kvikuhólf í skorpunni og stóðu lengi yfir, eins og t.d. Surtseyjargosið frá 1963 til 1967.

Ekkert liggur fyrir um hversu lengi eldgosið í Geldingadölum muni vara, en miðað við stöðugt kvikuflæði og aðrar vísbendingar gæti eldgosið staðið lengur en í fyrstu var ætlað út frá smæð eldgossins eins og sér.

Þetta er staðan á miðvikudaginn í næstu viku. Þá verða tólf sólarhringar frá upphafi goss.

Þetta verður staðan á sautjánda degi ef hraunframleiðslan verður sú sama og í dag. Hraun komið niður í Meradali.