Fréttir

Guðný Birna fyrsti kvenformaðurinn
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 2. apríl 2021 kl. 06:08

Guðný Birna fyrsti kvenformaðurinn

„Við höfum verið með margar mjög efnilegar konur í stjórn og HS Veitur hafa lagt mikið upp úr jafnræði kynja í stjórn. Þetta hefur verið algjörlega framúrskarandi reynsla og fjölbreytileg og hvet ég allar konur að bjóða krafta sína til stjórnar til að hafa áhrif. Það er svo mikilvægt að við konur látum af okkur kveða og séum fyrirmyndir fyrir hver aðra,“ segir Guðný Birna Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, hjúkrunarfræðingur og meistaranemi, en hún var nýlega kjörin formaður stjórnar HS Veitna.

„Ég hef verið í stjórn HS Veitna síðan árið 2015 eða í sex ár alltaf sem ritari stjórnar. Auk þess að hafa verið ritari stjórnar hef ég setið í endurskoðunarnefnd frá 2015 og var þar formaður 2019–2020. Ég þekki fyrirtækið því vel, stjórnina og starfsmennina. HS Veitur er frábært fyrirtæki sem starfar á Suðurnesjum, Vestmannaeyjum, Hafnarfirði, hluta Garðabæjar og á Selfossi. Fyrirtækið er með frábært starfsfólk sem telur tæplega 100 manns. Reksturinn er góður og fyrirtækið hefur verið að fjárfesta mikið í innviðum sínum og má þar helst nefna nýja aðstöðu í Hafnarfirði og uppbyggingu á varmadælustöð í Vestmannaeyjum.

Hitaveita Suðurnesja var stofnuð árið 1974 og var starfrækt í 34 ár og HS Veitur í þrettán ár, frá árinu 2008. Það er því einkar ánægjulegt að vera fyrsti kvenformaður í stjórn,“ segir Guðný Birna.

HS Veitur voru formlega stofnaðar árið 2008 þegar Hitaveitu Suðurnesja var skipt upp í tvö félög, HS Veitur og HS Orku. Reykjanesbær á 50,1% hlut í fyrirtækinu, HSV eignarhaldsfélag á 49,8% hlut og Sandgerðisbær 0,1%. HS Veitur veltu 7,5 milljörðum króna á árinu 2020 og hagnaður síðustu tvö árin voru um tveir milljarðar króna. Starfsmenn eru 94, þar af 63 í Reykjanesbæ.