Fréttir

Grindavíkurafleggjarinn hættulegur í hálku
Fimmtudagur 22. september 2005 kl. 10:06

Grindavíkurafleggjarinn hættulegur í hálku

Í hálku er Grindavíkurafleggjarinn hættulegur eins og tveir ökumenn komust að í gærmorgun þegar þeir misstu báðir stjórn á bifreið sinni í mikilli hálku en slysin voru aðeins með tveggja mínútna millibili.

Klukkan 07:12 var tilkynnt um bílveltu við Grindavíkurafleggjara á Reykjanesbraut en þar hafði ökumaðurinn misst stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að bifreiðin fór yfir umferðareyju og hafnaði síðan utan vegar á hliðinni. Ökumaðurinn var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar en fékk að fara heim að skoðun lokinni. Bifreiðina varð að fjarlægja með dráttarbifreið.

Tveim mínútum seinna varð annað umferðarslys á sama stað þar sem ökumaður missti stjórn á bifreið sinni sem fór yfir umferðareyju og hafnaði á vörubifreið sem hafði lagt á Grindavíkurvegi við Reykjanesbraut. Ökumaður vörubifreiðarinnar hafði lagt þarna til að hlúa að ökumanninum sem lenti í fyrra óhappinu. Engin teljandi slys urðu þó á fólki en ökumaðurinn var færður á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar.

Það voru þó fleiri sem lentu í mikilli hálku við Grindavíkurafleggjara því um klukkan 05:25 í morgun var tilkynnt um bílveltu á Reykjanesbraut við Grindavíkurveg.  Ökumaðurinn hafði misst stjórn á bifreiðinni í mikilli hálku. Þegar lögreglumenn komu á staðinn var ökumaður ásamt farþega farinn af vettvangi en hugsanlega voru þeir orðnir of seinir í flug. Að sögn tilkynnanda voru þarna útlendingar á ferð á bílaleigubifreið og voru þeir óslasaðir. Bifreiðin var fjarlægð af vettvangi með dráttarbifreið. Mikil hálka var á Reykjanesbraut á þessum tíma. Þá voru tveir aðrir smávægilegir árekstrar á Reykjanesbraut á svipuðum tíma sem voru leystir með því að fylla út tjónstilkynningu.

Myndin: Frá vettvangi eins slyssins VF-mynd/Þorgils

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024