Fréttir

Enn vantar upp á fjárframlög ríkisins til stofnana á Suðurnesjum
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 20. september 2019 kl. 10:42

Enn vantar upp á fjárframlög ríkisins til stofnana á Suðurnesjum

Aukning fjárframlaga ríkisins til stofnana og verkefna á Suðurnesjum hefur engan veginn fylgt mikill íbúafjölgun á svæðinu en á árunum 2015-2019 hefur íbúum fjölgað um 23,1% sem er lang mesta fjölgunin á landinu. Í ályktun frá aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem fram fór um síðustu helgi er bent á þetta misræmi og ríkisvaldið hvatt til að tryggja aukningu á fjárframlögum til Suðurnesja.

Íbúar á Suðurnesjum voru 22 þúsund  árið 2015 en voru orðnir 27 þúsund í ársbyrjun 2019. Í áætlanagerð ríkisins virðist ekki vera tekið nægjanlegt tillit til þess ef óvenju mikil fólksfjölgun verður á einstökum svæðum. Af þeim sökum er lagt til að m.a. verði skoðuð sérstaklega fjárframlög ríkisins til opinberra stofnana og annarra mikilvægra verkefna á svæðinu til þess að íbúar búi við sömu þjónustu og íbúar annarra svæða landsins. Má t.d. geta þess að fjáraukning til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja var 1% á ári með 0,5% hagræðingarkröfu á meðan íbúum svæðisins fjölgaði um 15%. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fundurinn skorar á ríkisvaldið að tryggja að fjárframlög til ríkisstofnanna t.d. Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og Lögreglunnar á Suðurnesjum fylgi þróun mannfjölda á svæðinu.

Aðalfundur SSS ályktaði einnig um samgöngumál þar sem hnykkt er á að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar, uppbyggingu stígakerfis fyrir fótgangandi og hjólandi milli byggðarkjarna og til og frá flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þá fordæmir SSS að ekki sé haft samráð við sveitarfélögin á Suðurnesjum um framtíðaráform flugsamgangna á SV-horninu. Það sé mikilvægt að samfélagslegir hagsmunir séu skoðaðir og metnir frá öllum hliðum áður en ákvörðun um framtíðar miðju innanlandsflugs er ákveðin. 

Einnig segir að nauðsynlegt sé ráðast í löngu tímabærar viðhaldsframkvæmdir á þjóðvegunum að Suðurnesjabæ auk þess sem breikka þarf veginn á milli bæjarkjarnanna.

Frá aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum 2019. VF-mynd/pket.