Fréttir

Auðvelt að fylgjast með hljóðstigi frá flugvélum
Flugumferð um Keflavíkurflugvöll. VF-mynd: Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
miðvikudaginn 10. júlí 2019 kl. 14:31

Auðvelt að fylgjast með hljóðstigi frá flugvélum

- Reynsla komin á hljóðmælingakerfi við Keflavíkurflugvöll



Gagnvirkt hljóðmælingakerfi hefur verið starfrækt við Keflavíkurflugvöll undanfarin misseri og talsverð reynsla er komin á kerfið. Kerfið er opið öllum í gegnum vef Isavia og hægt er að fá upplýsingar um flug sem nýlega hefur farið um flugvöllinn auk þess sem hægt er að sækja upplýsingar aftur í tímann.

Settir voru upp þrír fastir mælar, tveir í Keflavík og einn á Ásbrú. Auk þessara þriggja mæla var keyptur færanlegur mælir þannig að hægt sé að mæla á öðrum stöðum t.d. ef ábendingar berast frá ákveðnum svæðum í bænum eða í bæjarfélögum sem eru fjær flugvellinum en Reykjanesbær.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Kerfið birtir upplýsingar hljóðmæla í byggðinni í kringum flugvöllinn og er því hægt að fylgjast með hljóðstyrk frá flugumferð og fá helstu upplýsingar um flug til og frá flugvellinum. Í kerfinu er sérstakur tilkynningahnappur þar sem hægt er að senda ábendingu um flug tiltekinnar flugvélar. Með þessu móti verða ábendingar vegna flugumferðar nákvæmari og betur skráðar auk þess sem auðveldara er að greina það hvort tiltekið flug hafi farið eftir þeim flugferlum sem skilgreindir hafa verið í kringum flugvöllinn.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að það sem af er þessu ári hafi borist tugir ábendingar eða kvartanir vegna hávaða frá flugi. Í fyrra hafi einnig borist nokkrir tugir kvartana vegna flugs. Þær voru flestar í ágúst og september og voru vegna herflugs og fræsingu flugbrauta. Þá þurfti að nota austur/vestur-brautina, sem hefur flugstefnu sem liggur yfir Njarðvík, á nokkrum góðviðrisdögum. Að sögn Guðjóns tóku íbúar vel eftir því. 

Sambærilegt kerfi til hljóðmælinga er notað á mörgum stórum flugvöllum, til dæmis London Heathrow, Manchester flugvelli og Kaupmannahafnarflugvelli. Margskonar niðurstöður má svo fá út úr hljóðmælingakerfinu. Það getur tekið saman hvaða flugvélategund framkallar mestan hávaða, hvaða flugbrautir eru að valda mestum óþægindum og svo framvegis.

Á Keflavíkurflugvelli er reynt að stjórna fluginu þannig að það valdi sem minnstu ónæði fyrir nágranna flugvallarins en veður, brautarskilyrði, framkvæmdir og fleira getur þó haft áhrif þannig að beina þurfi flugi á brautir þar sem nágrannar flugvallarins verða frekar varir við ónæðið.

Á síðasta ári var ráðist í innleiðingu nýrra flugferla við Keflavíkurflugvöll. Guðjón segir breytinguna þar áhugaverða en áhrifasvæði ónæðis af flugi er miklu minna eftir innleiðingu nýju ferlanna eins og sjá má á mynd sem fylgir fréttinni.

Isavia hvetur fólk í nágrenni Keflavíkurflugvallar til að kynna sér hljóðmælingakerfið. Kerfið er auðvelt í notkun en notkunarleiðbeiningar og upplýsingar um kerfið er að finna hér.

Kerfið sjálft er að finna hér.

Vegna mikillar gagnagreiningar og sendingar gagna yfir net þá eru mælingar birtar 30 mínútum eftir flug.

Þá er rétt að taka fram að ekki að marka mælingar þegar vindur nálgast 10 m/s. Þá er svo mikill hávaði í rokinu sem hefur áhrif á mælingar.

Á síðasta ári var ráðist í innleiðingu nýrra flugferla við Keflavíkurflugvöll. Guðjón segir breytinguna þar áhugaverða en áhrifasvæði ónæðis af flugi er miklu minna eftir innleiðingu nýju ferlanna eins og sjá má á myndinni.

Venjuleg flughreyfing: Hægt að sjá númer flugvélar og tegund og hæð.