Stilling Bílaþjónusta Suðurnesja
Stilling Bílaþjónusta Suðurnesja

Fréttir

Almenningsbókasafninu í Garði lokað eftir 11. júlí
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
föstudaginn 5. júlí 2019 kl. 13:46

Almenningsbókasafninu í Garði lokað eftir 11. júlí

- Bókasafninu í Garði verður því lokað tímabundið vegna skorts á kennslurými í Gerðaskóla

Haustið 2019 hefjast framkvæmdir við viðbygginu við Gerðaskóla en til að mæta tímabundnum húsnæðisskorti var tekin ákvörðun um að nýta rýmið sem nú hýsir Almenningsbókasafnið í Garði fyrir nemendur 1. bekkjar í haust. Bókasafninu í Garði verður því lokað tímabundið.

11. júlí er síðasti opnunardagur bókasafnsins í Garði en eftir þann tíma mun Almenningsbókasafnið í Sandgerði þjónusta íbúa Suðurnesjabæjar. Unnið er að því að finna leiðir og nýungar til að þjónusta íbúa Suðurnesjabæjar sem best og þá sérstaklega íbúa í Garði þar sem nærþjónustan verður nú með takmarkaðri hætti. Starfsmenn beggja bókasafna í Suðurnesjabæ vinna saman að því að tryggja sem besta þjónustu fyrir íbúa. Nánari útfærslur verða kynntar með haustinu, segir í frétt á vef Suðurnesjabæjar.

Íbúar Suðurnesjabæjar eru hvattir til þess að nýta sér þá fríu bókasafnsþjónustu sem til staðar er í Suðurnesjabæ. Í sumar er bókasafnið í Sandgerði opið frá kl. 10.00-16.00 mánudaga til fimmtudaga. Bókasafnið í Sandgerði er staðsett við Sandgerðisskóla og íþróttamiðstöðina.

Þá verður settur upp skilakassi fyrir bækur í anddyri bæjarskrifstofa í Garði við Sunnubraut þar sem hægt verður að skila bókum. Skilakassi fyrir bækur er einnig til staðar í íþróttamiðstöðinni í Sandgerði.

Fyrir þá sem ekki eiga bókasafnskort er hægt að nálgast slík á Bókasafninu í Sandgerði.

Ljósmyndastofa Oddgeirs - Barna
Ljósmyndastofa Oddgeirs - Barna