Fréttir

Ákærður fyrir að hafa kveikt í veitingastað sínum í Keflavík
Föstudagur 12. nóvember 2021 kl. 10:59

Ákærður fyrir að hafa kveikt í veitingastað sínum í Keflavík

Karlmaður sem ákærður hefur verið fyrir að hafa kveikt í veitingastað sínum Kebab House í Keflavík í fyrra, var sjálfur fluttur á sjúkrahús með grun um reykeitrun vegna brunans. Þetta staðfestir Dagmar Ösp Vésteinsdóttir saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara í samtali við Fréttablaðið.

Einn var fluttur á sjúkrahús með reykeitrun eftir að hafa reynt að slökkva eld í eldhúsi veitingastaðarins Kebab House við Hafnargötu í Keflavík að morgni 21. júní í fyrra.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja og lögregla fengu útkall þegar klukkuna vantaði um stundarfjórðung í tíu þann dag um eld að Hafnargötu 32 í Keflavík. Þar eru verslanir og veitingahús á jarðhæð en íbúðir á efri hæðum.

Þegar lögregla kom á staðinn hafði einstaklingur reynt að slökkva eld í eldhúsi veitingastaðarins. Lögreglumenn fluttu hann þegar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja vegna gruns um reykeitrun.

Slökkvistarf gekk vel að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu. Talsverður hiti var þó í rýminu sem brann og er veitingastaðurinn mikið skemmdur.

Reykræsta þurfti íbúðir á efri hæðum hússins en reykur hafði komist inn á stigagang og inn í þær íbúðir sem voru opnar eftir að íbúar höfðu yfirgefið þær.

Í frétt Fréttablaðsins í dag segir að maðurinn sé einnig ákærður fyrir tilraun til fjársvika, með því að hafa í júlí sama ár krafið tryggingafélagið Sjóvá-Almennar um greiðslu bóta vegna tjónsins sem hlaust af eldsvoðanum og í framhaldinu einnig um bætur vegna rekstrarstöðvunar.

Í ákæru, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, kemur fram að tryggingafélagið hafi hafnað greiðslu bóta með vísan til þess að um íkveikju hafi verið að ræða.

Ákæran var gefin út af héraðssaksóknara 7. október síðastliðinn og málið verður þingfest í næstu viku í Héraðsdómi Reykjaness.